Landbúnaður

Góð ráð fyrir bændur

Plast í landbúnaði

Plast er mikilvægt efni í landbúnaði, ekki síst hvað varðar ræktun og varðveislu uppskeru. Jarðvegsdúkar verja plöntur t.d. gegn breytilegum veðurskilyrðum, koma í veg fyrir vöxt illgresis og ágengni skordýra og heyrúlluplast tryggir heyverkun og geymslu. Aðföng í landbúnaði koma oftar en ekki í plastumbúðum og þá eru vatns- og fóðurdallar sem og eyrnamerki og hálsbönd fyrir dýr t.d. úr plasti. Landbúnaðarplast hentar yfirleitt vel til endurvinnslu en eftir notkun er oft erfitt að endurvinna það sökum annarra efna sem hafa komist í snertingu við það, s.s. hey, mold og sand, áburð eða önnur efni.

  Ábyrg plastnotkun í landbúnaði

Eiginleikar og hönnun

Notkun

Hreinn úrgangsstraumur

Eiginleikar og hönnun

Bændur geta athugað hjá birgjum hvort að plastið henti til endurvinnslu og endurnotkunar. Við kaup á heyrúlluplasti skiptir litur þess t.d. miklu máli við endurvinnslu. Hvítt heyrúlluplast hentar best til endurvinnslu og endurnotkunar þar sem eftirspurnin er mest á mörkuðum eftir endurunnum, hvítum plastperlum.

Notkun

Má minnka notkunina, nota annað en plast eða endurnota plastið? Notkunartími plasts í landbúnaði er oft skammur en ef plast er meðhöndlað vel er stundum hægt að endurnota það. Til eru aðferðir til að draga úr plastvafningi á heyrúllum, t.d. með því að nota belgplast í stað rúllunets utan um heyrúllur. Belgplast má endurvinna eins og rúlluplast en rúllunet er ekki hægt að endurvinna og þarf að endurnýta á annan hátt.

    Hreinn úrgangsstraumur

    Góður frágangur á plasti viðheldur verðmætum plastsins til endurvinnslu. Bændur geta reynt að skila plasti eins hreinu og þurru og hægt er og gengið frá því þannig að það taki sem minnst pláss. Slíkur frágangur væri bæði til hægðarauka fyrir bændurna og sorphirðuaðila. Ef plasti er t.d. þjappað vel saman í böggul er betra að stafla því saman og hirða. En forsenda góðrar endurvinnslu á plasti byggir tvímælalaust á góðri samvinnu og samtali á milli bænda, sveitarfélaga og sorphirðuaðila.

    Umfjöllun um heyrúlluplast

    Heyrúlluplast ber úrvinnslugjald og er það lagt á hvert kíló af plasti sem er notað við pakkningar á heyrúllum. Úrvinnslugjaldið er hvati til að koma í veg fyrir urðun og ýta undir rétta meðhöndlun og endurvinnslu á heyrúlluplasti. Mjög mikilvægt er að heyrúlluplast sé laust við hey og aðra aðskotahluti svo hægt sé að endurvinna það. Heyrúllunet, bönd og hólkar má ekki fara með heyrúlluplastinu heldur er því safnað sérstaklega og endurnýtt með öðrum hætti.

    Best er að þurrka blautt og skítugt plast í nokkra daga áður en því er pakkað saman fyrir söfnun og endurvinnslu. Eins og áður hefur fram komið þá hentar hvítt heyrúlluplast best til endurvinnslu. Svart plast hentar síst til endurvinnslu og er mikilvægt að halda því frá öðru heyrúlluplasti. Ef bændur litaflokka plastið væri það til fyrirmyndar þar sem það eykur endurvinnslumöguleika plastsins.

    Endurvinnsla á heyrúlluplasti á Íslandi
    Fyrirtækið Pure North Recycling í Hveragerði sérhæfir sig í endurvinnslu á heyrúlluplasti og öðru plasti. Úr plastinu eru búnar til plastperlur sem hægt er að endurvinna við plastframleiðslu. Markmið fyrirtækisins er að geta tekið á móti öllu heyrúlluplasti sem er notað á Íslandi en árlega eru flutt inn um 2000 tonn af heyrúlluplasti.  
    Heyrúlluplast úr endurunnu plasti – tilraunaverkefni 2022-2023
    Sumarið 2022 fór af stað áhugavert tilraunaverkefni fyrirtækisins Silfurbergs og Fóðurblöndunnar með endurunnið heyrúlluplast. Um 360 heyrúllur verða pakkaðar inn í endurunnið heyrúlluplast og mun Landbúnaðarháskóli Íslands skoða verkun og geymslu heysins yfir næsta vetur. Verkefnið er enn á byrjunarstigi og endurunnið heyrúlluplast ekki komið í almenna sölu. Spennandi verður að sjá hvort að endurunnið plast geti gefið íslenskum bændum góða raun en með því að nota endurunnið plast má draga úr kolefnislosun og um leið stuðla að hringrásarhagkerfi
    35% - Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár

    endurvinnsla á heyrúlluplasti á Íslandi síðustu ár