Byggingariðnaður

Góð ráð fyrir verktaka

Plast í byggingariðnaði

Plast er víða notað í byggingariðnaði, s.s. í einangrun, glugga, lagnir, gólfefni, innréttingar og svo mætti lengi telja. Þó að plast sé ekki stærsti úrgangsflokkurinn í byggingariðnaði er nauðsynlegt að tryggja að plastefni skili sér í hringrás og forðast notkun skaðlegra plastefna eins og mögulegt er.

 

Ábyrg plastnotkun í byggingariðnaði

Hringrásarhönnun

Tryggja að plast endi í hringrás

Forðist PVC og frauðplast

Hringrásarhönnun

Byggingar sem eru hannaðar samkvæmt umhverfisstöðlum- eða vottunum taka tillit til þess að byggingar- og niðurrifsúrgangur sé ekki meiri en efni standa til og skaðleg efni séu ekki notuð við byggingarferlið. Í viðmiðum Svansins fyrir endurbætur er t.d. lögð áhersla á hringrásarhagkerfið og horft sérstaklega til þess hvaða hlutar byggingar henta til endurnotkunar og endurvinnslu.

Frekari umfjöllun um hringrásarhagkerfið í mannvirkjagerð má meðal annars finna í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð II. hluta sem Byggjum grænni framtíð, samstarfsverkefni stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins, gaf út árið 2022.

 Tryggja að plast endi í hringrás

Auknar kröfur um endurnýtingu

Auknar kröfur verða lagðar á aðila að flokka byggingar- og niðurrifsúrgang á verkstað, þar á meðal plast, þegar ný lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 taka gildi þann 1. janúar 2023. Yfirlýst markmið íslenskra stjórnvalda er að ná 95% endurnýtingarhlutfalli á byggingar- og niðurrifsúrgangi árið 2030.

Áætlun um meðhöndlun úrgangs

Góður undirbúningur að framkvæmd og yfirsýn getur stuðlað að því að endurnýtanlegt efni fari í réttan úrgangsstraum í stað þess að enda í urðun. Samkvæmt byggingarreglugerð eiga aðilar að gera áætlun um meðhöndlun úrgangs (sjá kafla 15.2. í Byggingarreglugerð) og hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefið út almennar leiðbeiningar um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs sem má sjá hér. Ítreka má mikilvægi góðs frágangs og umgengni á byggingarstað upp á að lausamunir og rusl fjúki ekki og endi í náttúrunni.

Ýmsar aðgerðir sem styðja við bætta úrgangsstjórnun á byggingarstað og við niðurrif bygginga er einnig að finna í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð II. hluta.

Hvar er hægt að koma byggingarúrgangi í endurnýtingu?

Ýmsir möguleikar eru nú í boði fyrir aðila til að skila af sér efniviði sem geta nýst öðrum og hvert nýsköpunarfyrirtækið sprettur upp af fætur öðru til að finna leiðir við að koma byggingarúrgang í aðra endurnýtingu. Má þar nefna Efnisveituna, sem aðstoðar við að koma margvíslegum efniviði sem eigendur hafa ekki not fyrir lengur í endursölu, Efnismiðlun Góða Hirðisins og MölUndur, sem er gagnagrunnur opinberra framkvæmdaaðila um samnýtingu jarðvegs til að lágmarka kolefnislosun og stuðla að hringrás.

Forðist PVC og frauðplast

PVC plast og PS plast eru algengar plasttegundir notaðar í byggingariðnaði og er það miður þar sem þessar plasttegundir innihalda heilsuspillandi efni. Meirihluti framleidds PVC plasts í heiminum er notað í einhverskonar byggingarvörur, s.s. vinyldúka, lagnir, kapla o.fl. PS plast þekkjum við best sem frauðplast. Rannsóknir hafa sýnt að báðar þessar plasttegundir, PVC og PS, hafa skaðleg áhrif á heilsu fólks og umhverfið.

Skaðleg áhrif PVC

PVC inniheldur oft þalöt sem mýkja plastið en talið er að þalöt geti haft alvarleg áhrif á hormónastarfsemi líkamans. Nánar um skaðleg áhrif þalata er að finna hér á vef Umhverfisstofnunar. Ekki er það einungis skaðlegt heilsu og umhverfi heldur er framleiðsla þess mjög mengandi og er efnið einnig afar óhentugt til endurvinnslu.

Skaðleg áhrif frauðplasts

Í frauðplasti er notað stýren en Alþjóða krabbameinsrannsóknarstofnunin (IARC) hefur gefið það út að stýren geti verið krabbameinsvaldandi. Stýren er varasamt efni og hefur heilsuspillandi áhrif í för með sér á t.d. öndunarfæri, slímhúð, augum og meltingarveg. Frauðplast er einnig slæmt fyrir umhverfið, það hentar illa til endurvinnslu, fýkur auðveldlega og endar því oft í náttúrunni og brotnar niður í örplast. Til að bæta gráu ofan á svart er framleiðsluferli frauðplasts mjög mengandi. Við framleiðsluna er stundum notuð klórflúorkolefni til að blása það upp en þetta efni hefur neikvæð áhrif á ózon lagið.

Umhverfisvottaðar byggingarvörur

Athuga skal vel að staðgengisvara plasts sé bæði endingargóð og uppfylli skilyrði um að innihalda ekki skaðleg efni. Svansmerktar vörur tryggja það að varan sé ekki skaðleg umhverfi og heilsu fólks. Úrval svansvottaðra vara fyrir byggingariðnaðinn og húsnæði er mjög gott hér á landi og má finna vörulistann á heimasíðu Svansins.