Umbúðir

Góð ráð fyrir umbúðahönnuði, framleiðendur, heild- og smásölur

Hringrásarhönnun

Evrópusambandið hefur bent á að allt að 80% af umhverfisáhrifum vöru séu ákvörðuð á hönnunarstiginu. Í upphafi skal endinn skoða og því er mikilvægt að umbúðahönnuðir og framleiðendur séu meðvitaðir um að umbúðirnar sem þeir eru að búa til séu hannaðar til að haldast í hringrás eins lengi og mögulegt er. Umbúðir þurfa að vera hannaðar þannig að hægt sé að endurnota þær, gera við þær og/eða endurvinna.

Hér að neðan má sjá þær leiðir sem hægt er að fara til að draga úr plastumbúðum og hanna umbúðir sem geta enst í hringrás til framtíðar.

 

Á Íslandi er magn plastumbúða sem hver íbúi losar sig við um 47 kg á hverju ári eða alls um 16.500 tonn. Þegar við tölum um plastumbúðir er átt við allar umbúðir úr plasti sem tengjast lífi einstaklings, heimili, skóla og vinnu.  Endurvinnsla á plastumbúðum á Íslandi síðustu ár er í kringum 25-30%, en inni í þeirri tölu er endurvinnsla drykkjavöruumbúða með skilagjaldi (85% endurunnið), heyrúlluplasts (60-70% endurunnið) og annarra umbúða úr plasti (10-15% endurunnið). Tölfræði um endurvinnslu umbúða er einnig að finna á síðu um tölfræði úrgangs á síðu Umhverfisstofnunar.

Losun

af plastumbúðum á hvern Íslending á ári

35% - Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár

endurvinnsla á plastumbúðum á Íslandi síðustu ár

  Hringrásarhönnun umbúða

Sleppa umbúðum

Draga úr magni umbúða

Endurnotkun

Einnota umbúðir

1. Sleppa umbúðum

Mikilvægur liður í að koma á fót hringrásarhagkerfi er að draga úr öllum óþarfa einnota vörum, hvort sem þær eru úr plasti eða öðrum efnum. Þegar kemur að umbúðum ætti fyrsta spurningin því alltaf að vera:

eru þessar umbúðir nauðsynlegar?

Eitt af því sem margir framleiðendur geta hæglega gert er að sleppa annars stigs umbúðum sem oft eru nýttar utan um fyrsta stigs umbúðir til þess að láta vörurnar líta vel út í hillum verslana. Fyrsta stigs umbúðir má hanna þannig að þær þjóni einnig tilgangi annars- og þriðja stigs.

 2. Draga úr magni umbúða

Ef ekki er hægt að sleppa umbúðum skal hugað að eftirfarandi til að lágmarka efnisnotkun:

 

 • Laga umbúðirnar að stærð vöru eins og hægt er
 • Gera umbúðirnar þynnri og léttari
 • Gera vöruna sjálfa léttari og minni t.d. með því að selja hreinlætisvörur í púðurformi sem kaupandinn bætir vatni við sjálfur
 • Selja vörur í miklu magni (e.bulk) þar sem við á
 • Birgjar noti fjölnota umbúðir við flutninga á vörum
 • Verslanir bjóði neytendum að kaupa fjölnota burðarpoka sem svo er hægt að skila aftur (t.d. hægt að vera með skilagjald)

 3. Endurnotkun

Margnota umbúðir, áfyllingar- og deiliþjónustur og viðgerðir eru mikilvægir þættir þegar kemur að því að skapa hringrás plasts.

Margnota umbúðir
Þar sem plast er endingagott efni sem brotnar ekki niður hentar það í raun mun betur í margnota vörur heldur en einnota. Margnota plast þarf að vera:

 • Hitaþolið, þar sem meiri hætta eru á því að íblöndunarefni leki úr plastinu þegar það er heitt.
 • Laust við hættuleg íblöndunarefni, s.s. BPA, BPS, og BPF, sem getur með tíð og tíma lekið úr plastinu og haft hormónaraskandi áhrif.
 • Harðgerðara en einnota plast, þar sem bakteríumyndun er auðveldari ef það myndast sprungur í plastinu.
 • Hægt að gera við
 • Tímalaus hönnun

Dæmi um notkun á fjölnota plasti er t.d. þegar birgjar koma með vörur í fjölnota burðarkössum til fyrirtækja eða þegar fjölnota ílát eru notuð undir matvæli eða aðrar áfyllingarvörur.

Áfyllingar- og deiliþjónustur

Matvöruverslanir, ísbúðir, sjoppur, fiskbúðir, veitingastaðir og aðrir smásalar geta hæglega afhent viðskiptavinum matvæli í fjölnota ílátum, sjá leiðbeiningar Matvælastofnunar, og/eða boðið upp á fjölnota borðbúnað. Hægt er að bjóða upp á fjölnota ílát og borðbúnað ef borðað er á staðnum, bjóða viðskiptavinum að koma með eigin ílát eða selja slík ílát út með skilagjaldi sem svo er greitt til baka þegar ílátinu er skilað inn. Einnig er hægt að selja aðrar vörur en matvæli í áfyllingu, t.d. hreinsivörur. 

Þá er hægt að styðja enn betur við hringrás umbúða með því að bjóða upp á deiliþjónustur. Umbúðir er nefnilega hægt að endurskilgreina sem þjónustu í stað vöru. Við þekkjum flest deiliþjónustur eins og t.d. Hopp sem gerir fólki kleift að leigja rafskútur og bíla. Hvernig væri ef viðskiptavinir gætu leigt ílát á einum stað og skilað þeim á öðrum?

 

Viðgerðir
Plast er mjög endingagott efni og hægt er að lengja líftíma ýmissa plastvara enn fremur með því að gera við þær. Fyrirtæki geta boðið viðskiptavinum sínum upp á slíka þjónustu, en geta einnig sinnt slíku viðhaldi fyrir margnota plastvörur sem þau nýta.

Hægt er að laga plast með því að nota plastlím af réttri gerð. Ef plastlímið dugir ekki til er hægt að bræða plastið með lóðbolta og laga þannig rifur og göt. Mikilvægt er að huga að öryggi við plastviðgerðir svo að starfsmenn andi ekki að sér hættulegum gufum og nýta viðeigandi hlífðarbúnað og grímur.

4. Einnota umbúðir 

Ef ekki er hægt að sleppa eða draga úr plastumbúðum og endurnotkun ekki möguleiki verður að tryggja að umbúðirnar séu endurvinnanlegar og að sem mestu leyti úr endurunnu plasti. Þetta kemur í veg fyrir aukna þörf á frumplasti og heldur plasti í hringrásinni. Framleiðendur umbúða eru lykilaðilar þegar kemur að því að skapa eftirspurn eftir endurunnu plasti.

 

  Hér má finna upplýsingar um þau atriði sem vert er að hafa í huga þegar hanna á einnota umbúðir sem eru endurvinnanlegar og úr endurunnu plasti. Myndin þar fyrir neðan sýnir svo forgangsröðun fyrir efnisval einnota umbúða.

  Endurvinnanlegar umbúðir

  Gott er að hafa eftirfarandi atriði á hreinu:

  • Tekur sorphirðan að sér að safna tilteknu plasti?
  • Getur endurvinnsluaðilinn endurunnið plastið?
  • Er eftirspurn eftir endurunna plastinu?
  • Eru umbúðirnar merktar með réttum merkingum?
   • Merkingar um flokkun
   • Plastmerkingar, þ.e. endurvinnsluþríhyrningur með númeri plasttegundar inní

  Atriði sem auðvelda endurvinnslu:

  Hreinn úrgangsstraumur
  Ekki samblanda af plasti og pappa eða öðru efni.

  Velja lit á umbúðum sem hentar endurvinnsluferlinu
  Best er að sleppa litarefnum alveg. Svartir og dökkir litir henta mjög illa til endurvinnslu.

  Takmarka prentun beint á umbúðirnar
  Best er að nota lasermerkingar og/eða takmarka upplýsingar við framleiðsludag eða best fyrir.

  Velja merkingar og lím sem hentar endurvinnsluferlinu
  Miðar með vatnsleysanlegu lími
  Umbúðaermi (e. shrink sleeve) sem er eins lítil og mögulegt er og auðvelt að fjarlægja

  Umbúðir úr endurunnu plasti

   Gæði og eiginleikar

  • Endurunnið plast hegðar sér ekki alltaf eins og frumplast. Þá aðallega vegna þess að plast sem fer inn í endurvinnsluna er aldrei fullkomlega hreint, einhver blöndun við önnur efni er nánast óhjákvæmileg. Mikilvægt er að slá af stífum kröfum um lit efnisins, fagurfræðilega eiginleika og frammistöðu og einblína á þá þætti sem eru nauðsynlegir fyrir virkni umbúðanna. Eftir því sem eftirspurnin eykst er þó viðbúið að gæðin aukist einnig.

  Matvælaöryggi

  • Mörg endurunnin plastefni uppfylla nauðsynlegar kröfur til að tryggja matvælaöryggi. Enn eru samt margir sem eru tortyggnir eða halda að endurunnið plast megi ekki koma í snertingu við mat. Árið 2009 gaf Evrópusambandið út nýja reglugerð um efni og hluti úr endurunnu plasti sem er ætlað að komast í snertingu við matvæli. Reglugerðin hefur verið tekin upp í íslensk lög. Sjá nánar á vef Matvælastofnunar.
  • Aðildaríki ESB hafa eftirlit með fyrirtækjum sem framleiða endurunnið plast fyrir matvæli og það er í þeirra höndum að samþykkja framleiðsluferlana. Ef endurvinnslan á plasti á sér stað á Íslandi þá er það í höndum Umhverfisstofnunar að veita slíkum fyrirtækjum ráðgefandi álit.

  Umhverfisvitund

  • Það að nota endurunnið plast getur komið umhverfisáherslum fyrirtækja til skila á auðveldan og jafnvel sjónrænan hátt. Endurunnið plast verður þá merki um skuldbindingu vörumerkisins við sjálfbærni og getur jafnvel skapað sérstöðu á markaði.

  Lagaleg skylda

  • Íslensk stjórnvöld hafa sett reglur sem setja einnota plastvörum ýmis takmörk
  • Samkvæmt þeim skulu flöskur úr PET plasti innihalda að lágmarki 25% endurunnið plast frá árinu 2025 og frá 2030 skulu allar flöskur sem falla undir ákvæðið innihalda að lágmarki 30% endurunnið plast.
  • Samband plastframleiðenda í Evrópu hefur kallað eftir því að Evrópusambandið lögfesti markmið um 30% hlutfall endurunnins plast í öllum plastumbúðum fyrir árið 2030.
  • Það er því viðbúið að lögin gangi einn daginn lengra svo það er ekki seinna vænna að byrja að íhuga endurunnið plast sem hráefni í nýjar vörur!
  Hvaða plasttegundir henta til endurvinnslu?

  Það er mest eftirspurn eftir endurunnu plasti í háum gæðaflokki, af algengri gerð, og í ljósum lit.

  Eftirfarandi plasttegundir henta vel til endurvinnslu og er eftirspurn eftir eins og staðan er í dag:

  Heyrúlluplast, PET, rPET, Bio-PET, LDPE, rLDPE, bio-LDPE, HDPE, rHDPE, Bio-HDPE, PP, rPP, Bio-PP

  Eftirfarandi plasttegundir henta vel til endurvinnslu en lítil eftirspurn er eftir eins og staðan er í dag:

  EPS, PET bakkar, PP filma, önnur filma

  Eftirfarandi plasttegundir henta illa til endurvinnslu og því ekki eftirspurn til staðar eins og staðan er í dag:

  PVC, PS, PLA, annað lífplast, sellófan, oxo niðurbrjótanlegt plast, samsettar umbúðir (t.d. EVOH, PA, málmhúð, AlOx , SiOx)

  Úrvinnslugjald verður hærra á vörum sem erfitt eða ómögulegt er að endurvinna
  Umbúðir og drykkjarvöruumbúðir úr plasti og heyrúlluplast bera úrvinnslugjald sem standa á straum af kostnaði við endurvinnslu. Með breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir í júní 2021 varð úrvinnslugjald þrepaskipt þannig að tekið sé tillit til endingar, möguleika á viðgerðum, endurnotkunar, endurvinnslu og innihalds hættulegra efna í tilteknum vörum. Þetta gerir það að verkum að úrvinnslugjald verður hærra á vörum sem erfitt/ekki er hægt að endurvinna. Sjá nánar um breytingu á lögum um úrvinnslugjald hér: https://www.althingi.is/altext/stjt/2021.103.html

  „Það er mest eftirspurn eftir endurunnu plasti í háum gæðaflokki, af algengri gerð og í ljósum lit“

  Hvaða efni skal velja í einnota umbúðir og borðbúnað?

  Forgangsraðið:

  • A.m.k. 50% endurunnið plast sem hægt er að endurvinna áfram
  • Lífplast gert úr hrati sem er hægt að endurvinna með öðru plasti (bio-PET, bio-PE og bio-PP)
  • Svansvottaður borðbúnaður
  • Pappír eða pappi úr sjálfbærri skógrækt (merktur FSC eða PEFC eða með áreiðanlegu umhverfismerki – Svanurinn, Evrópublómið, Blái engillinn, Bra Miljöval og Green Seal)

  Ef ofangreint gengur ekki þá skal velja:

  • Hefðbundið plast sem er ósamsett, af algengri gerð (PET, PE, PP), ólitað og með ákjósanlegum merkingum

  FORÐIST:

  • Umbúðir úr samsettum efnum, t.d. ál+plast, plast+pappír, margar gerðir af mismunandi plasti
  • PVC plast og frauðplast
  • Álpappír
  • Lífplast, annað en það sem minnst er á hér að ofan 

  Endurvinnsla

  Síðustu ár hefur einungis um 28% af öllu umbúðaplasti á Íslandi skilað sér í endurvinnslu. Mikilvægt er að hönnuðir og fyrirtæki hjálpi neytendum að koma umbúðum í réttan farveg.

  Góð ráð:

  Réttar og skýrar flokkunarmerkingar á umbúðunum sjálfum, sjá flokkunarmerkingar FENÚR á fenur.is

  Plastmerkingar séu einnig á umbúðum úr plasti, þ.e. endurvinnsluþríhyrningur með númeri plasttegundar inní, sjá hér undir Hvað er plast

  Fræðsla til viðskiptavina um rétta flokkun 

  Fyrirtæki geti tekið á móti umbúðum og komið þeim í réttan farveg fyrir viðskiptavini sína 

  Gott og opið samtal við sorphirðuþjónustu um stöðuna hverju sinni og úrbætur