Skrifstofur

Góð ráð fyrir skóla, fyrirtæki og opinberar stofnanir

Plastið á skrifstofunni

Það kemur á óvart hversu mikið plast kemur inn á hinn hefðbundna vinnustað. Flestum vörum fylgja umbúðir sem oftar en ekki eru úr plasti, einnota borðbúnaður er stundum í boði í mötuneyti eða á viðburðum tengdum starfseminni og svo eru þættir eins og akstur sem valda losun örplasts. Til að hefja vegferðina í átt að ábyrgari plastnotkun er nærtækast að fara vel yfir öll innkaup, setja upp skilvirka flokkunaraðstöðu og fræða starfsfólk. Hér að neðan höfum við tekið saman góð ráð.

Dregið úr plastnotkun á vinnustaðnum

Útrýma einnota vörum

Lágmarka plastnotkun

Auka hlut vistvænna samgangna

Umhverfisvottaðar vörur

Flokkunaraðstaða

Útrýma einnota vörum

Byrjið á að kortleggja hvaða einnota vörur þið eruð að kaupa inn. Þetta geta t.d. verið plastpokar, kaffibollar, vatnsglös og annar borðbúnaður. Í sumum tilfellum eru þessar vörur hreinn óþarfi en oftar en ekki er hægt að finna margnota staðgengla. Vatnsvél og margnota glös er t.d. betri kostur en vatn og sódavatn í einnota umbúðum og oftar en ekki er hægt að sleppa pokum í flokkunartunnur.

Það er sérstaklega mikilvægt að hafa þessa hluti í huga þegar skipuleggja á viðburði innan eða utan vinnustaðarins. Viðburðum fylgir oft mikil sóun, t.d. þegar kemur umbúðum, skreytingum og gjöfum. Við bendum á leiðbeiningar Grænna skrefa um sjálfbæra viðburðaskipulagningu.

 

  Lágmarka plastnotkun

 

    Margnota umbúðir
    Þegar búið er að útrýma öllum einnota vörum og í einhverjum tilvikum finna margnota staðgengla þeirra er komið að því að þrýsta á ykkar birgja. Biðjið birgja að afhenda t.d. matvæli í margnota umbúðum sem þið getið skilað til þeirra að notkun lokinni. Ef birgjar geta ekki afhent vörur í margnota umbúðum, farið fram á að þeir taki við umbúðunum og sjái um að flokka þær rétt. Þetta skapar hvata fyrir þá til að finna betri lausnir. 
    Forðist einstaklingsumbúðir
    Pantið vörur sem hafa langan endingartíma í miklu magni (e. bulk)  til þess að minnka umbúðanotkun og forðist að sama skapi að panta vörur sem koma í umbúðum fyrir einn (t.d. smjör, sulta, mjólk í kaffi, kaffihylki o.s.frv.). Forðist sömuleiðis vörur sem er tvípakkað innt.d. pappaumbúðir utan um plastumbúðir
    Lán, leiga og kaupa notað
    Liður í því að draga úr plastnotkun á vinnustaðnum er að leigja hluti, fá þá lánaða og kaupa notaða (t.d. húsgögn, tölvubúnað, prentara). Þetta dregur úr magni umbúða og eftirspurn eftir nýjum hlutum sem oftar en ekki eru úr plasti. 

    Skiptimarkaður á vinnustaðnum er sniðugur vettvangur til að ýta undir þessa hugsun hjá starfsfólki. Þá er hægt að setja upp t.d. fataslá og borð á fjölförnum stað og hafa uppi yfir ákveðið tímabil (eða jafnvel alltaf!) þar sem starfsfólk getur losað sig við föt og ýmsa muni og fundið ýmsar gersemar frá öðrum í staðinn. Það er hægt að hafa skiptimarkað fyrir næstum hvað sem er; föt og skó, bækur, jólaskraut og skógjafir, húsmuni, plöntur og afleggjara og grímubúninga svo dæmi séu nefnd.

    Vistvænar samgöngur

    Dekk eru ein stærsta uppspretta örplasts í náttúrunni og því getum við dregið úr örplastmengun með því að draga úr akstri. Þetta á bæði við um akstur á vegum vinnustaðarins en líka akstur starfsmanna til og frá vinnu. Fjarfundir og fjarvinna eru frábær tól sem koma í veg fyrir samgöngur yfirhöfuð. Vinnustaðir geta boðið upp á hjól, rafhjól, rafskútur, niðurgreiddar strætóferðir og leigu á rafskútum sem starfsmenn geta nýtt á vinnutíma. Samgöngusamningar eru eitt besta tækið sem vinnuveitendur hafa til að hvetja starfsmenn til vistvænna samgangna til og frá vinnu, hvort sem þeir ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur. Á vef Grænna skrefa eru greinargóðar upplýsingar um hvernig er hægt að innleiða samgöngusamninga með farsælum hætti.

    Gleymum því svo ekki að vistvænar samgöngur eru auðvitað heilsueflandi og stuðla að minni losun gróðurhúsaloftegunda.

    Umhverfisvottaðar vörur

    Ef þið getið ekki leigt, fengið lánað eða keypt notað – leitið þá eftir áreiðanlegu umhverfismerkjunum þegar innkaup eru gerð.  Merkin eru meðal þeirra sem talin eru í hæsta gæðaflokki merkja og geta því neytendur treyst því að þegar þeir kaupa vöru eða þjónustu sem merkt er Svaninum, Evrópublóminu eða öðrum sambærilegum merkjum þá séu þeir að velja það besta fyrir umhverfi og heilsu. 

    Úrval umhverfismerktra vara verður sífellt meira hér á landi en dæmi um slíkar vörur eru t.d. húsgögn, vefnaðarvörur, hreinlætisvörur, ræsti- og þvottavörur, byggingarvörur og húsnæði, kerti, raftæki, rafhlöður og svo mætti lengi telja. Hér á landi hefur undanfarin ár verið mikill uppgangur í Svansvottaðari þjónustu en dæmi um slíkt eru ræstiþjónustur, prentsmiðjur, dagvöruverslanir, hótel, veitingastaðir og ráðstefnur. Sjá nánar á heimasíðu Svansins á Íslandi.

     

      Flokkunaraðstaða

      Setjið upp flokkunaraðstöðu fyrir allan úrgang þar sem við á á vinnustaðnum og fjarlægið ruslatunnur á einstaka skrifstofum/við skrifborð. Á vef FENÚR má nálgast flokkunarmerkingar. Fræðið starfsfólk um hvernig bera skal sig að við flokkunina og hvetjið þau til dáða. Flest sorphirðufyrirtæki bjóða upp á fræðslufyrirlestra fyrir sína viðskiptavini.

       

       

      Við bendum á að á heimasíðu verkefnisins Græn skref – www.graenskref.is – má nálgast fræðslu, leiðbeiningar og upplýsingar um þær aðgerðir sem vinnustaðir geta farið í til að gera reksturinn umhverfisvænni. Formleg þátttaka í verkefninu er einungis fyrir stofnanir ríkisins en allt efni er opið og getur því nýst hverjum sem er.