Rannsóknir

Rannsóknir og athuganir á matarsóun á Íslandi eru enn sem komið er af skornum skammti en þó hefur orðið mikil vakning á síðustu misserum og áform eru um að auka tíðni og gæði mælinga á matarsóun.

Matarsóun á Íslandi er sambærileg því sem gerist í öðrum löndum Evrópu

Þetta eru einar helstu niðurstöður rannsóknar á umfangi matarsóunar á Íslandi. Rannsóknir á viðhorfum Íslendinga sýna líka að lang flestir vilja leggja sitt af mörkum til að draga úr matarsóun.

Viðhorf til matarsóunar

Þrjár viðhorfskannanir hafa verið gerðar af Maskínu fyrir hönd Umhverfisstofnunar árið 2015, 2017 og 2021. Fleiri en þúsund þátttakendur voru spurðir í hvert sinn og byggir á tilviljunarúrtaki úr Þjóðskrá og svörin eru svo viktuð til að endurspegla þjóðina útfrá kyni, aldri og búsetu.

20 mín - Meðal notkunartími plastpoka

Reyna að lágmarka matarsóun

Losun

%

Fleiri draga úr matarsóun umhverfisins vegna núna en 2015

35% - Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár

Telja að umræða um matarsóun hafi aukist

2021

Könnun á viðhorfi til matarsóunar

2017

Könnun á viðhorfi til matarsóunar

2015

Könnun á viðhorfi til matarsóunar

Umfang matarsóunar

Umhverfisstofnun hefur tvívegis gert rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi. Safnað var upplýsingum um hversu miklum mat og drykk er hent inni á heimilum, í matarframleiðslu, í heildsölu og smásölu, á veitingastöðum og í mötuneytum hér á landi og hversu stórum hluta af matvælunum væri hægt að nýta. Rannsóknirnar voru unnar með styrk frá Evrópsku hagstofunni (EUROSTAT) og eru fyrsti vísir af hagtölum um matarsóun á Íslandi.  

Rannsóknin skiptist í tvennt, annars vegar í heimilishluta og hins vegar í fyrirtækjahluta. Þátttakendur mældu og skráðu þann mat sem þeir hentu. 

Helstu niðurstöður: 

  • Matarsóun á heimilum á Íslandi er sambærileg því sem gerist í öðrum löndum Evrópu. Byggt á niðurstöðunum má áætla að hver einstaklingur sói að meðaltali um 90 kg af mat árlega.
  • Ekki var tölfræðilega marktækur munur á niðurstöðunum 2019 og 2016.
  • Rannsóknirnar draga upp svipaða mynd af matarsóun frá atvinnurekstri og komið hefur fram í öðrum Evrópulöndum, þar sem mesta sóunin er í veitingarekstri og matvælaframleiðslu. 

Taka verður niðurstöðunum með fyrirvara því svarhlutfall var lágt, eða í kringum 10%. Árið 2019 lentu 1067 heimili í úrtaki en svör bárust frá 90 heimilum. Sama ár lentu 762 fyrirtæki í úrtaki og svör bárust frá 80 fyrirtækjum. Svipuð svörun var uppi á teningnum 2016, en þá lentu 1036 heimili í úrtaki og svör bárust frá 123 heimilum. Þá lentu 701 fyrirtæki í úrtaki og svöruðu 84.

Matarsóun 2019

Tölfræðiskýrsla um niðurstöður rannsóknar á umfangi matarsóunar 2019.

Matarsóun 2016

Tölfræðiskýrsla um niðurstöður rannsóknar á umfangi matarsóunar 2016.

Forrannsókn á matarsóun

Tilgangur forrannsóknarinnar var að fá vísbendingar um umfang matarsóunar á reykvískum heimilum og prófa hér á landi þær aðferðir sem nú þegar eru notaðar til að mæla matarsóun annars staðar í heiminum.

Með matarsóun er átt við þann mat sem hægt hefði verið að neyta. Því telst t.d. kaffikorgur, bein, bananahýði o.þ.h. ekki til matarsóunar.

Sautján heimili tóku þátt í forrannsókninni. Þau svöruðu tveimur spurningalistum um hegðun og viðhorf gagnvart matarsóun og skráðu allan mat og drykk sem var hent yfir viku tímabil í matardagbók. Mælingar tóku eingöngu til matarsóunar inná heimilum, ekki þess matar sem heimilisfólk sóar utan þess.

Forrannsókn Landverndar á matarsóun heimila í Reykjavík bendir til að a.m.k. 5.800 tonnum af mat og drykk sé hent af reykvískum heimilum árlega. Þetta samsvarar a.m.k. 4,5 milljörðum króna. Samkvæmt mælingum inn á sautján heimilum hendir hver einstaklingur um 48 kg á ári sem gerir um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Sú upphæð dugar fyrir einu kílói af lambakótelettum og léttu meðlæti í hverri viku. Ef dregið yrði úr matarsóun um 20% væri 1.150 tonnum minna hent af mat sem þýddi um 900 milljóna sparnað fyrir íbúa Reykjavíkur í heild sinni. Tæplega 18,5 milljóna króna sparnaður yrði vegna gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs.

Ástæða matarsóunar reykvísku heimilanna var aðallega tvenns konar, annars vegar að „eldað, matreitt eða skammtað hafi verið of mikið” (46%) og hinsvegar að „matur var ekki notaður á réttum tíma“ (44%). Peningasparnaður var sterkasti hvatinn til að minnka matarsóun hjá þátttakendum en samviskubit, skilvirkni, umhverfisáhrif og fæðuskortur annars staðar í heiminum voru einnig sterkir hvatar. Eftir að matardagbókinni var lokið sögðu nær allir þátttakendur að þeir myndu héðan í frá leggja sig fram við að minnka magn þess matar sem er hent af heimilum þeirra.

Rannsakendur telja mat þessarar forrannsóknar varfærið og að matarsóun kunni að vera enn meiri, en frekari rannsóknir vanti. Viðameiri rannsókn er nauðsynleg til að fá gleggri og öruggari mynd af matarsóun Íslendinga. Ljóst er að niðurstöður forrannsóknarinnar nýtast fyrir slíka vinnu og gefa jafnframt mikilvægar vísbendingar um hvernig megi best nálgast aðgerðir gegn matarsóun. Landvernd vann þessa forrannsókn í samstarfi við Reykjavíkurborg og fyrir tilstilli verðlaunafés sem Reykjavíkurborg tók við þegar hún fékk Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

Skýrslur um matarsóun

Hinar ýmsu skýrslur hafa verið gefnar út um umfang matarsóunar erlendis. 

Skýrsla UNEP

Food waste index report 2021

Skýrsla FAO

Áhrif matarsóunar á náttúruauðlindir

Bandarísk skýrsla

Skýrsla um matarsóun í Bandaríkjunum

Leiðbeiningar ESB

Leiðbeiningar ESB um mælingar á matarsóun

Leiðbeiningar um mælingar

Gefnar út af félagasamtökunum WRAP

Norsk skýrsla

Leiðbeiningar fyrir kortlagningu
matarsóun í veitingageiranum