Geymsla matvæla
Góð og rétt geymsla á matvælum getur lengt endingartíma þeirra. Hér getur þú lært hvernig mismunandi matvæli geymast best.„Góð geymsla er gulli verð“
Með því að geyma matvæli á réttan hátt verður maturinn listugri og endist lengur. Þú sparar líka bæði tíma, peninga og fyrirhöfn með því að þurfa ekki að henda mat sem hefur orðið ónýtur bara vegna þess að hann var geymdur á rangan hátt.
Ávextir og ber
Ferskir ávextir og ber geta skemmst auðveldlega og því mikilvægt að kaupa ekki of mikið í einu.
Það er best að geyma ávexti í kæli í grænmetisskúffunni. Þetta á við um flesta ávexti nema banana og ananas, sem fá auðveldlega frostbit í kæli. Gott er að kaupa meira af hörðum ávöxtum sem endast almennt lengur, til dæmis eplum og perum sem geta enst lengi í kæli.
Flestir ávextir koma í sínum eigin pakkningum, en ef ávextir hafa verið skornir er mikilvægt að pakka þeim vel inn, til dæmis í plastfilmu eða setja í box með þéttu loki. Það er líka hægt að setja suma skorna ávexti í vatn, svo sem appelsínur, epli og jarðarber og lengja þannig geymslutíma þeirra.
Ávexti sem muna sinn fífil fegri er oftast í góðu lagi að borða. Notaðu nefið og treystu skynfærunum. Ávaxtasalöt, safar, og smoothie er tilvalin leið til að nota þreytta ávexti.
Ef ávextir eru á síðasta snúningi er auðveldlega hægt að frysta þá og nýta síðar. Ávexti er best að skera niður í minni bita áður en þeir eru settir í frystinn. Geymsluþol ávaxta er einnig hægt að auka með því að setja þá í sykurlag og svo er hægt að nýta þá í sultur og eftirrétti.
Grænmeti
Það er mikilvægt að kaupa ekki of mikið í einu af grænmeti til að passa að það skemmist ekki
Mikilvægt er að pakka grænmeti vel inn til að lengja geymslutíma þess. Til dæmis með því að leyfa því að vera áfram í plastpakkningum sem grænmetið kemur í eða setja í glerkrukku með góðu loki.
Gott er að kaupa meira af grænmeti sem endist lengi s.s. gulrætur, rauðrófur, hvítkál og blómkál. Það er hægt að hressa upp á hart grænmeti sem er orðið linnt með því að setja í kalt vatn í ísskápnum.
Yfirleitt er best að geyma grænmeti í grænmetisskúffunni í kælinum. Þó geta gúrkur og eggaldin fengið frostbit ef kælirinn er of kaldur. Óþroskaðir tómatar og avókadó (lárpera) þroskast vel á eldhúsbekknum, en eftir það er best að setja í kæli.
Oftast er í góðu lagi að borða grænmeti þó að það sé orðið skorpið. Notaðu nefið og treystu skynfærunum. Þreytt grænmeti er hægt að nýta í ommilettur, kássur, stir fry, pizzur, súpur, brauðrétti og ofnrétti.
Ef grænmeti er á síðasta snúningi er auðveldlega hægt að frysta það og nýta síðar. Grænmeti er gott að sjóða stuttlega og hella svo yfir köldu vatni áður en það eru setti í frysti.
Geymsluþol grænmetis er einnig hægt að auka með því að setja það í lög, t.d. með því að marinera það, eða súrsa.
Fiskur og kjöt
Það er mikilvægt að fiskur og kjöt haldist kalt. Finndu þann stað í kælinum sem er kaldastur og settu kjötið og fiskinn þar. Þetta á sérstaklega við um viðkvæmar vörur þ.e. ferskan fisk, skelfisk og hakk.
Það virkar vel að frysta kjöt og fisk. Passaðu að pakka því vel inn og merktu með dagsetningu. Magrar kjötvörur haldast lengur í frysti en feitari vörur.
Egg
Það er best að geyma egg í kæli. Þá lengist geymsluþol þeirra töluvert, og þau haldast góð í nokkrar vikur eftir best fyrir dagsetninguna. Best fyrir dagsetningin á eggjum miðar nefnilega við að eggin séu geymd við stofuhita. Ef þú ert í vafa, notaðu þá nefið! Ef egg lykta og líta út eins og venjulega þá er í góðu lagi að treysta skynfærunum.
Eggjahvítur, og jafnvel eggjarauður, má frysta. Það getur til dæmis verið sniðugt ef verið er að elda rétti sem krefjast annaðhvort bara eggjahvíta eða eggjarauða að setja hinn hluta eggsins í frysti og nota síðar.
Kartöflur
Gott að geyma kartöflur á svölum og þurrum stað. Þær geymast lengur í grænmetisskúffunni í ísskápnum.
Olía
Olíu er hægt að geyma í stofuhita, en gjarnan á dimmum stað. Það er hægt að lengja geymsluþol olíu með því að geyma hana á köldum stað.
Þurrvörur
Geymið á þurrum stað og þá haldast þurrvörur lengi. Það er hægt að lengja geymsluþol þurrvara með því að geyma þær á köldum stað.
Kryddjurtir
Ferskar kryddjurtir geta verið fljótar að skemmast. Hægt er að setja ferskar kryddjurtir t.d. kóríander, steinselju, og basiliku, í glas með köldu vatni og geyma í ísskápnum svo þau endist lengur. Þessar kryddjurtir er líka hægt að vefja inn í eldhúspappír og setja í kæliskúffuna til að auka geymsluþol. Trékenndar kryddjurtir, svo sem rósmarín er hægt að vefja í blautan eldhúspappír og setja í kæli til að auka geymsluþol. Einnig er hentugt að stinga ferskum kryddjurtum í frystinn eða hakka og setja í olíu til að nota síðar.
Sultur, sósur og aðrir bragðbætar
Sultu, tómatsósu, remúlaði, sinnep, salsa, pestó og fleira geymist venjulega lengi í stofuhita ef það er óopnað. Eftir að vörurnar eru opnaðar er best að geyma þær í kæli.
Oftast endast opnaðar krukkur lengi. Notaðu nefið og treystu skynfærunum. Ef það er góð lykt og maturinn bragðast vel þá er hann í góðu lagi. Ef það myndast mygla í þessum vörum er hún oftast sjáanleg og þá er best að sleppa því að borða vöruna.
Suma bragðbæta er hægt að frysta og nota síðar. Til dæmis getur verið gott að stinga salsa í frystinn eða pestói.
Brauð
Brauð er best að geyma á þurrum stað við stofuhita, og þannig helst það ferskt í ca. viku, en stundum lengur. Notaðu nefið og treystu skynfærunum.
Súrdeigsbrauð getur enst lengur en venjulegt brauð og sömuleiðis endist og endist hrökkbrauð ef það er geymt í lokuðu boxi á þurrum og köldum stað.
Ef að brauð hefur harðnað og er orðið minna kræsilegt er gott húsráð að hita bakaraofn í 150° gráður, bleyta brauðskorpuna örlítið og stinga því inn í ofn í 5-10 mínútur. Eftir það er brauðið aftur orðið eins og það var daginn eftir bakstur.
Það er sniðugt að frysta brauð áður en það myglar og harðnar. Áður en brauð er sett í frysti er best að skera það í sneiðar. Það er ekki gott að geyma mjúkt brauð í kæli því þar verður það fljótt þurrt, og betra að setja það beint í frysti.
Hægt er að nýta þurrt og harðnað brauð á ýmsa vegu, t.d. þurrka það og búa til rasp, brauðteninga, brauðrétti, franskt eggjabrauð, brauðsúpur og brauðsósur.
Hnetur
Hnetur geymast best á dimmum, köldum stað í vel lokuðum umbúðum. Hnetur með skurn er hægt að geyma í mörg ár, en hnetur án skurnar halda í skemmri tíma. Hægt er að setja hnetur í kæli og frysti til að lengja geymsluþol þeirra.
Mjólkurvörur
Mjólk og jógúrt sem hafa verið vel kæld geymast oftast mun lengur en merktar dagsetningar, því ber að treysta á skynfærin. Notaðu nefið, og ef mjólkurvaran lyktar og bragðast vel þá er hún í góðu lagi.
Mjólk og rjómi á seinasta snúning er hægt að setja í frystinn. Það er ekki hægt að þeyta frystan rjóma, en það virkar vel að elda með honum.
Mjúkostar
Ef mygla myndast á mjúkum osti, eins og brie, camembert og jafnvel sýrðum rjóma, ber ekki að neyta hans.
Harðostar
Ostur geymist lengi í ískápnum. Gott er að láta hann ekki standa of lengi frammi á borði og pakka honum vel inn. En það er líka gott að læra listina að frysta ost. Leiðinlega kanta af ostum og mismunandi restir er hægt að rífa niður og setja í poka eða box og stinga inn í frystinn. Síðan er hægt að nota ostinn fyrir hin ýmsu gratín og bökur. Þetta gengur jafnvel með brauðost og ábætis osta t.d. mexíkóost.
Dósamatur
Dósamatur geymist mjög lengi óopnaður við stofuhita. Þegar dósin hefur verið opnuð er best að geyma matinn í ísskápnum og hann endist svipað lengi og aðrir matarafgangar. Takið gjarnan matinn úr dósinni og setjið í ílát sem hægt er að loka vel.
Uppskriftir
Hér getur þú fundir uppskriftir sem nýta það sem er til.
Listinn byggir á umfjöllunninni hér.