Matarsóun í atvinnulífinu

Þriðjungur þess matar sem er framleiddur á heimsvísu er sóað. Með því að draga úr matarsóun má vernda umhverfið, nýta betur auðlindir og spara fé. Með því að breyta umgengni okkar við mat getum við dregið úr óþarfa sóun.

„Þeir sem vinna með matvæli eru í góðri stöðu til að  nota þekkingu sína, hæfni og sköpunargáfu til draga úr matarsóun“

Þegar mat er sóað sköpum við óþarfa álag á umhverfið. En það getur líka verið hagkvæmt fyrir reksturinn að draga úr sóun og finna nýjar leiðir til að nýta matinn betur.

Hvað getur atvinnulífið gert?

Matarsóun á sér ekki bara stað á heimilum heldur í allri virðiskeðju matvæla. Því er mikilvægt að framleiðendur, flutningsaðilar, verslanir og veitingageirinn leggi hönd á plóg til að sporna gegn matarsóun.

Bóndabýli, fiskvinnsla eða matarvinnsla
  • Greinið úrganginn
    Skoðið vel þann úrgang sem myndast, hverju er hent mest af og reynið að minnka hann.
  • Greinið framleiðsluferilinn
    Skoðið alla ferla í framleiðslunni með lágmörkun matarsóunar eða almennrar sóunar í huga.
  • Skoðið geymsluaðferðir
    Geymið afurðirnar rétt. Hér er til dæmis hægt að skoða góð ráð um geymslu á matvælum.
  • Myndið samstarf
    Myndið samstarf með nýsköpunaraðilum sem gætu fullnýtt afurðina þína. Eins manns rusl er annars fjársjóður!
  • Gefið afslátt
    Seljið útlitsgallaðar afurðir og vörur á lækkuðu verði.
  • Notið frekar seinasta söludag
    Varist að setja óþarfa dagsetningar á vöru. Komið frekar upplýsingum til verslana um síðasta söludag og annað í gegnum strikamerki.
  • Gefið til samtaka
    Gefið afgangsafurðir og vörur til samtaka sem taka við matargjöfum. Undir „Gefa“ fellilistanum ofar á síðunni getið þið fundið lista yfir þá aðila sem þiggja matargjafir á Íslandi.
  • Fáið fleiri með í lið
    Upplýsið starfsfólk um aðgerðir gegn matarsóun.
Veitingastaðir og mötuneyti
  • Stillið ísskápinn rétt
    Geymið matinn á réttan hátt í vel stilltum ísskáp og frysti. Í kæliskáp er gott að gera ráð fyrir að hitastigið sé um og undir +4°C og -18°C í frystiskáp. Ef kæliskápurinn er of heitur er hætt á því að kjöt og fiskur skemmist. Ef kæliskápurinn er of kaldur er hætta á frostskemmdum á grænmeti og ávöxtum.
  • Greinið sóun í ferlunum ykkar
    Skoðið vel þann úrgang sem myndast, hverju mest er hent af og reynið að minnka hann. 
  • Endurmetið innkaup
    Berið reglulega saman innkaupalistann, búrið og hverju er hent og endurmetið innkaup.
  • Minnkið matseðilinn
    Skipuleggið og minnkið matseðilinn með það í huga að minnka sóun.
  • Gefið afslátt
    Bjóðið upp á minni skammta á lægra verði.
  • Endurnýtið afganga
    Nýtið afganga í aðra rétti. Skoðið uppskriftarsíðu samangegnsoun.is fyrir innblástur og hugmyndir!
  • Áætlið betur hráefnismagn
    Áætlið betur það magn sem þarf að elda með því að láta fólk skrá sig í mat eða nota skammtareiknivél, t.d. þessa hér.
  • Afgangar í take-away
    Hvetjið viðskiptavini til að taka afganga með sér heim.
  • Gefið afganga
    Gefið afganga/matvæli sem ekki er neytt til samtaka sem taka við matargjöfum. Undir „Gefa“ fellilistanum ofar á síðunni getið þið fundið lista yfir þá aðila sem þiggja matargjafir á Íslandi.
  • Fáið fleiri með í lið
    Upplýsið starfsmenn um aðgerðir gegn matarsóun.
  • Lesið greinargóðar Leiðbeiningar fyrir mötuneyti
    Þar fáið þið dýpri þekkingu og nánari leiðbeiningar um hvað er hægt að gera, líka varðandi umbúðir í mötuneytum. 
Verslanir
  • Þekkið geymsluaðferðir vörunnar
    Geymið vöruna rétt eða samkvæmt leiðbeiningum.
  • Greinið sóun í ferlunum ykkar
    Skoðið vel alla ferla með lágmörkun matarsóunar eða almennrar sóunar í huga. Metið þann úrgang sem myndast, hverju er hent mest af og reynið að minnka hann. Hér eru leiðbeiningar að því hvernig ber að haga sér í skoðun úrgangs.
  • Gefið afslátt
    Seljið útrunnar vörur eða vörur á “síðasta notkunardegi” á lækkuðu verði. Seljið útlitsgallaðar vörur á lækkuðu verði. Athugið þó að umbúðir séu ekki rofnar. Um 15–30% af grænmeti og ávöxtum er hent sökum útlitsgalla.
  • Endurhugsið framsetningu
    Endurhugsið framsetningu á vöru þannig að hillur virðist fullar þrátt fyrir að vera það ekki.
  • Sumt má klárast
    Leyfið vörum að klárast í hillum. Ef krafa er gerð um að hillur séu alltaf fullar leiðir það óhjákvæmilega til ofpantana og matarsóunnar.
  • Gefið afganga
    Gefið óseldar vörur til samtaka sem taka við matargjöfum. Undir „Gefa“ fellilistanum ofar á síðunni getið þið fundið lista yfir þá aðila sem þiggja matargjafir á Íslandi.
  • Fáið fleiri með í lið
    Upplýsið starfsmenn um aðgerðir gegn matarsóun.
  • Montið ykkur af aðgerðum gegn matarsóun
    Látið okkur vita af þessum aðgerðum og við bætum ykkur á lista hér yfir verslanir sem sporna gegn matarsóun.

Geyma

Hvernig geymast mismunandi matvæli best?

Afgangar

Hvernig er hægt að gefa mismunandi afgöngum nýtt líf?

Uppskriftir

Viltu fleiri hugmyndir að uppskriftum sem nýta matinn vel?

Afhverju er matarsóun vandamál?

Matarsóun er léleg nýting á auðlindum og fjármunum sem og hefur í för með sér óþarfa neikvæð áhrif á umhverfið. Með því að draga úr matarsóun má nýta dýrmætar auðlindir jarðar betur og spara fé.

Þriðjungi þess matar sem er framleiddur er sóað

Þriðjungi þess matar sem er framleiddur er sóað samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eða um 1.3 milljarðar tonna af mat á hverju ári í heiminum. Á Norðurlöndunum er sóað um 3.5 milljónum tonna af mat árlega! Matvælum sem er sóað hefðu mögulega getað brauðfætt milljónir manna og minnkað þá hungursneyð sem steðjar að ýmis staðar í heiminum. Þar að auki hefur framleiðsla matar oft talsverð neikvæð umhverfisáhrif sem þjóna þá engum tilgangi ef maturinn er ekki nýttur og eykur verulega við magn úrgangs sem þarf að urða. Hér er einnig um sóun á fjármunum að ræða þar sem heimili og stóreldhús kaupa í rauninni oft of mikið af mat. Því fæst töluverður samfélagslegur, umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur af því að minnka matarsóun.

Fólk heldur oft að matarsóun skipti ekki máli því matur er lífrænn og brotnar auðveldlega niður. Það er rétt í þeim skilningi að þegar við hendum epli í skógi þá brotnar það eðlilega niður og gefur að mestu frá sér CO2. Hins vegar er meirihluti þessa úrgangs á Íslandi urðaður sem krefst sífellt meira landsvæðis og leiðir til myndunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þegar lífrænn úrgangur brotnar niður við loftfirrðar aðstæður, líkt og myndast við urðun, þá myndast metan gas. Metan er 21 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð og því töluvert verri.  Þótt málið sé flókið og margir aðilar komi að því geta nokkrar einfaldar breytingar á venjum okkar og rekstri fyrirtækja haft veruleg áhrif.

 

Matarsóun skilar sér í 8–10% af hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNEP) gaf 2021 út skýrslu sem leggur mat á umfang matarsóunar á heimsvísu. Þeirra niðurstaða er að samanlagt endi 17% af mat í matvöruverslunum, á matsölustöðum og á heimilum í ruslinu. Áætlað er að þetta skili sér í 8 – 10% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Ef matarsóun á framleiðslu- og vinnslustigi og dreifingu er tekið inn í myndina verður umfangið enn meira og losunin sömuleiðis. Matvæla– og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 3,3 milljón kílótonn (3,3 Gt) af losun koldíoxíðígilda  í heiminum á ári megi rekja til matarsóunar. Þetta er sérstaklega alvarlegt þar sem matarsóun veldur losun sem myndast að óþörfu.

Matarsóun er mest inni á heimilum, eða ríflega 60% af heildarsóuninni samkvæmt UNEP. Þetta á sérstaklega við í ríkari löndum, eins og til dæmis Íslandi.  Mælingar á matarsóun á Íslandi benda til þess að hver einstaklingur hendi í kringum 90 kíló af mat árlega. Í hefðbundinni fjögurra manna vísitölu fjölskyldu er því hent 360 kílóum á ári. Það eru nær 7  kíló af mat á viku! Þetta umfang svipar til hinna Evrópulandanna. Til dæmis sýna rannsóknir frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi að hver einstaklingur hendir í kringum 80 kíló af mat á ári.

Þessi matarsóun endar sem úrgangur, en meðhöndlun úrgangs var uppspretta 5% af heildarlosun Íslands árið 2019 (án landnotkunnar). Þessi losun á sér fyrst og fremst stað þegar lífbrjótanleg efni, svo sem matarleifar, brotna niður á urðunarstað með tilheyrandi losun metangass. Losun Íslands vegna matarsóunnar er enn meiri ef tekið er tillit til þeirrar losunar sem myndast við framleiðslu af mat sem aldrei verður borðaður.

Í aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2030 er rætt um áhrif matarsóunar á losun. Þar er lögð áhersla á að draga eigi úr losun frá úrgangi um 59% miðað við árið 2018. Þar sem matvæli eru stór hluti urðaðs úrgangs á Íslandi þá mun minni matarsóun óhjákvæmilega draga úr urðun og tilheyrandi losun. Þess vegna er það hluti að aðgerðum stjórnvalda að draga úr matarsóun samhliða því að bann við að urða lífrænan úrgang og urðunarskattur verði settur á. Þessi áhersla íslenskra stjórnvalda er einnig í samræmi við alþjóðlegar áherslur. Í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem sett voru 2015 er lagt til að eigi síður en árið  2030 hafi sóun matvæla á smásölumarkaði og hjá neytendum minnkað um helming á hvern einstakling um heim allan. 

 

Verkefni sem draga úr matarsóun

Yfirlit yfir fyrri og núverandi verkefni sem hafa haft það að markmiði að draga úr matarsóun

Myndskreyting gegn matarsóun

Virðiskeðjan

Matarsóun á sér stað á öllum stigum virðiskeðju framleiddra matvæla; við framleiðslu, vinnslu, flutning, sölu, og neyslu. Matarsóun hefur í för með sér ýmis neikvæð umhverfisáhrif, mikla sóun á fjármunum og samfélagsleg áhrif þar sem þeim mat sem er sóað væri mögulega hægt að nýta annars staðar í heiminum. Hér má sjá einfaldaða mynd sem sýnir virðiskeðju framleiddra matvæla. Matvælum sem er sóað á öllum stigum keðjunnar.

1. Framleiðsla

Uppspretta matvæla liggur í náttúruauðlindum okkar. Framleiðsluferlið er þó yfirleitt töluvert flóknara og getur haft áhrif á umhverfi, samfélag og efnahag. Ýmislegt þarf við framleiðslu matvæla, m.a. fjármagn, vatn, plöntuvarnarefni og jarðefnaeldsneyti. Framleiðsla matvæla getur leitt til losunar gróðurhúsalofttegunda, jarðvegs- og vatnsmengunar, jarðvegsrýrnunar, minnkunar líffræðilegs fjölbreytileika og aukinnar úrgangsmyndunar.

2. Vinnsla

Matvæli eru oft unnin talsvert áður en þau rata í búðir eða á disk neytenda. Hrísgrjón, salt og sykur eru hreinsuð, dýrum er slátrað, korn malað og afurðirnar unnar í hinar ýmsu vörur. Þessi vinnsla getur kostað mikla peninga og orku, m.a. í formi raforku eða jarðefnaeldsneytis. Einnig fer töluvert hráefni í bæði vöruna sjálfa og umbúðir á vörunni. Líkt og í framleiðsluferlinu, þá getur vinnsluferlið haft í för með sér ýmis konar umhverfisáhrif, þá helst losun gróðurhúsalofttegunda, jarðvegs- og vatnsmengun og úrgangsmyndun.

3. Flutningur

Þegar varan er fullunnin og búið að pakka henni inn í viðeigandi umbúðir þarf að koma vörunni til neytenda. Matvæli eru flutt með bílum, flugvélum og skipum um allan heim. Því felur þetta skref virðiskeðjunnar í sér mikla brennslu á jarðefnaeldsneyti sem leiðir til mengunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þetta á sérstaklega við á Íslandi þar sem stór hluti þeirra matvæla sem við neytum er fluttur inn með tilheyrandi kolefnisspori. Flutningur matvæla eykur einnig slit á innviðum, t.d. vegum, með tilheyrandi kostnaði.

4. Verslun

Á endanum rata innpakkaðar vörurnar í verslanirnar. Mikil vinna, orka og fjármagn fer í framsetningu á vörunum til að hvetja neytendur til að kaupa þær. Þrátt fyrir það selst ekki nærri því allt og mikil matarsóun og úrgangsmyndun á sér því stað.

5. Neysla

Þá er neytandinn loks kominn með afurðirnar á diskinn, hvort sem það er heima eða á veitingastað. Peningur, orka og tími fór í að verða sér út um það sem er á disknum. Í vestrænum heimi er matarsóun hvað mest á þessu stigi.

Myndskreyting gegn matarsóun

Rannsóknir á matarsóun

Yfirlit yfir tölfræði og rannsóknir á matarsóun

Myndskreyting gegn matarsóun

Um umbúðir, matarsóun og fleira fyrir mötuneyti

Gagnlegar upplýsingar fyrir mötuneyti og aðra sem starfa með mötuneytum