Matarsóun

Þriðjungi þeirra matvæla sem framleidd eru á heimsvísu er sóað. Með því að draga úr matarsóun má vernda umhverfið, nýta auðlindir betur og spara fé. Með því að breyta umgengni okkar við mat getum við dregið úr óþarfa sóun.

„Sjö af hverjum tíu reyna að lágmarka matarsóun“

Lang flestir vilja leggja sitt af mörkum til að draga úr matarsóun. Þetta eru niðurstöður þriggja kannana meðal svarenda sem endurspegla viðhorf íbúa Íslands. 

Hvað get ég gert?

Ástæður matarsóunar heimila eru margþættar. Þær tengjast því hvernig við skipuleggjum okkur, kaupum inn, geymum og eldum mat, borðum og nýtum afganga. Hér fylgja ráð um hvað hver og einn getur gert til að breyta sínum vönum til að koma í veg fyrir matarsóun. Ef að við sjáum fram á að matarsóun sé yfirvofandi bendum við líka á leiðir til að gefa og molta mat.

Skipuleggja
  • Búa til innkaupalista
    Vísbendingar eru um að matarsóun geti minnkað um 20% við það eitt að versla eftir innkaupalista.
  • Kíkja í ísskápinn áður en þú kaupir í matinn
    Það hjálpar við skipulagningu á innkaupalista, og matarplani, og tryggir að þú kaupir ekki mat að óþörfu.
  • Taka mynd af því sem er til í ísskápnum
    Það getur verið einföld og fljótleg leið til að vita hvað er til í ísskápnum áður en þú ferð út í búð.
  • Tala saman um innkaupin
    Ef fleiri en einn sér um innkaupin á heimilinu er mikilvægt að eiga samskipti um innkaupin til að forðast að sama vara sé keypt tvisvar.
  • Gera mataráætlanir
    Mataráætlanir geta dregið úr matarsóun, að því gefnu að þær innihaldi sveigjanleika. Til dæmis er hægt að miða við að skipuleggja þrjár máltíðir fyrir vikuna, en nýta svo það sem er til og afganga hina dagana.
  • Panta matarpakka
    Fyrir þau sem hafa lítinn tíma fyrir skipulag er þægilegt að kaupa matarpakka með skipulögðum máltíðum sem eru annaðhvort sóttar eða sendar heim.
  • Halda dagbók fyrir matarafganga
    Þetta getur hjálpað þér að fá yfirsýn yfir hversu miklum matvælum þú hendir og hvernig hægt er að skipuleggja hvað eigi að gera úr þeim.
Versla
  • Forðast magnafsláttargryfjuna
    Þú gætir verið að kaupa meira magn en þú nærð að klára áður en það skemmist.
  • Velja litla körfu eða kerru í matvörubúðinni
    Ef við veljum of stóra körfu þegar við förum í matvörubúðina er hætta á því að við kaupm meira en við ætlum okkur.
  • Kaupa matvöru í litlum pakkningum
    Um 20-25% af matarsóun tengist of stórum pakkastærðum. Við gætum þess vegna haldið að við séum að spara peninga með því að kaupa vöru í meira magni, en það sparast enginn peningur ef maturinn endar svo bara í ruslinu. Ef þú kaupir í stórum pakkningnum er gott að skipta því í minni pakkningar og frysta það sem ekki nýtist strax.
  • Versla við kaupmanninn á horninu
    Matarsóun er meiri meðal þeirra sem versla eingöngu í stórmörkuðum. Ódýrara verð stórmarkaða getur því verið tálsýn, þar sem stærri hluti endar í ruslinu. 
  • Kaupa frekar oft og lítið í einu
    Það eru vísbendingar um að matarsóun sé minni meðal heimila sem versla oft í matinn.
  • Kaupa útlitsgallaðar vörur
    Um 20-40% ferskra afurða er hent alveg af óþörfu sökum strangra útlitskrafna verslana. En það er fegurð í fjölbreytileikanum og við getum skemmt okkur við að kaupa skrítnar og skældar matvörur. Með því að velja vanbeygðan banana eða tvíhausa gulrætur er hægt að sýna verslunum að eftirspurn sé eftir þeim.
  • Kaupa vörur sem eru að renna út
    Margar búðir bjóða upp á matvöru á afslætti sem er að nálgast síðasta söludag eða best fyrir dagsetningu. Vörur sem eru komnar yfir síðasta söludag og best fyrir geta verið fullgóðar vörur. Notaðu nefið til að athuga hvort þær séu í lagi. Borðaðu þær svo við fyrsta tækifæri eða stingdu þeim í frystinn.

Geyma
  • Raða opnuðum umbúðum fremst
    Það er gott að skipuleggja ísskápinn þannig að þú raðar elstu vörunum og þeim sem hafa verið opnaðar fremst og í augnhæð.
  • Nota nefið
    Treystu á skynfærin áður en þú hendir góðum mat.
  • Þekkja muninn á geymsluþolsmerkingum
    Vörur sem eru merktar með „best fyrir“ eru oft góðar eftir. Reglan er að ef matvaran lyktar og bragðast vel þá er hún í góðu lagi. Vörur sem eru merktar með „síðasta notkunardegi“ eru hinsvegar viðkvæmar vörur sem gætu verið skaðlegar heilsu ef þeim er neytt eftir að varan er runnin út. Í þeim tilvikum er betra að taka ekki áhættuna.
  • Stilla ísskápinn rétt
    Geymslutími matvæla getur styst töluvert ef hitastig ísskáps er of hátt. Í kæliskáp er gott að gera ráð fyrir að hitastigið sé um og undir +4°C og -18°C í frystiskáp. Ef kæliskápurinn er of heitur er hætt á því að kjöt og fiskur skemmist. Ef kæliskápurinn er of kaldur er hætta á frostskemmdum á grænmeti og ávöxtum.
  • Hafa rúmt um matvælin í ísskápnum
    Það gefur betri yfirsýn, kælir vörurnar betur og minnkar líkurnar á því að eitthvað týnist í ísskápnum.
  • Merkja hvenær þú opnaðir vörurnar
    Þá er auðvelt að átta sig á því hvað þær eru orðnar gamlar. Gott er að hafa tússpenna við eða á ískápnum svo auðvelt sé að merkja.
  • Nýta sér góð ílát fyrir afgana
    Hafðu fullt af margskonar ílátum í eldhúsinu fyrir afganga. Oft er gott að þau séu með glærar hliðar og lok svo auðveldlega sjáist hvað er í þeim. Einnig er gott að þau séu með loftþéttum lokum til að auka geymsluþol.
  • Settu afgangana strax í kæli
    Afgangar haldast ferskir lengur ef maður kælir þá niður sem fyrst. Ef þú ætlar þér ekki að nota þá strax, hentu þeim þá inn í frysti.
  • Læra hvernig geyma á mismunandi matvöru
    Lærðu hvernig mismunandi matvörur geymast best. Skoðaðu neðar á síðunni undir „Hvað get ég lært?“
Elda
  • Elda rétt magn
    Gott að miða við að elda ekki fyrir fleiri en þá sem eru í mat. Til dæmis að minnka uppskrift fyrir fjóra um helming ef aðeins tveir eru í mat. Einnig er hægt að nýta sér skammtareiknivélar til að vita hversu mikið þú þarft að elda.
  • Elda úr því sem er til í ísskápnum
    Það minnkar líkurnar á matarsóun að nýta það sem er til í ísskápnum til að ákveða hvað eigi að vera í matinn. Notaðu hugmyndaflugið og leitaðu á netinu að uppskriftum sem hægt er að nota innihaldsefni sem eru þegar til.
  • Elda sjálf/ur
    Með því að elda oft eykst færni í því að elda sem gerir það auðveldara að nýta það sem er til á skapandi hátt. Og af hverju ekki að fara á námskeið til að læra meira?
  • Læra að elda úr öllu
    „Eldað úr öllu“ námskeiðin eru verkleg og eru  ætluð að auka vitund fólks og færni í að nýta mat betur.
    Frekari upplýsingar um námskeiðin fást hjá Kvenfélagasambandi Íslands:
    Kvenfélagasamband Íslands
    Sími: 552 7430
    Netfang: kvenfelag@kvenfelag.is
Borða
  • Nota minni matardiska
    Stórir matardiskar auka líkurnar á matarsóun. Hér áður fyrr voru diskar oft minni en hafa stækkað með árunum. Það getur verið gott að leita eftir svipuðum diskum og afi og amma voru með.
  • Bera fram lítið í einu
    Það getur verið gott að bera fram matinn í smærri einingum og geymi umframmatinn í kæli. Þetta gildir bæði um veislumat og heimilismat. Svo er alltaf hægt að bæta við ef einhverjir vilja fá meira.
  • Bera fram mat í sitthvoru lagi
    Ef við berum fram matinn í sitthvoru lagi þá geymast afgangarnir betur. Hugsaðu hverja máltíð eins og taco kvöld, þar sem maturinn er borinn fram í minni ílátum og hver setur saman sína eigin máltíð.
  • Hafa það kósý heima
    Ef við förum oft út að borða er hætta á því að við gleymum því sem er til heima. Hafðu það því í staðinn kósý heima, kveiktu kertaljós og borðaðu eitthvað gott.
  • Panta af matseðli
    Ef þú ferð út að borða er best að panta af matseðli. Hlaðborð eru ávísun á matarsóun. Og afhverju ekki að panta tvo forrétti í staðinn fyrir aðalrétt? Þá geturðu bæði verið skemmtileg matarupplifun og þú getur verið nokkuð viss um að klára. Annars er alltaf hægt að biðja um að fá að taka afgangana með heim.
Afgangar
  • Matarafgangar eru gróði
    Ef þú notar afganga sparar þú bæði tíma og peninga. Með því að nota afganga sleppur þú við að fara út í búð, þú þarft ekki að eyða orku í að ákveða hvað eigi að vera í matinn og þarft ekki að standa í eldamennsku.
  • Lærðu listina að frysta
    Ýmis konar afganga má frysta og nota síðar, t.d. umframmat, ávexti, grænmeti, rjóma, og kryddjurtir. Skiptu afgöngunum upp í hæfilegar skammtastærðir,  merktu með innihaldi og dagsetningu.
  • Notaðu nefið
    Þegar það er komið að því að borða afgangana notaðu þá nefið – ef það er góð lykt og gott bragð, þá er í góðu lagi með þá. Nefið er miklu áreiðanlegra en best fyrir dagsetning.
  • Áberandi afgangar
    Settu afgangana á áberandi stað í ísskápnum og í augnhæð
  • Afganga í allt
    Gerðu það að vana að nota afganga í alla matargerð, og skipulegðu það sem á að vera í matinn út frá því sem er til.
  • Afgangar í hverri viku
    Veldu einn eða fleiri fasta dag í viku fyrir afganga.
  • Kaupstopp fyrir frí
    Settu á kaupstopp áður en kemur að fríum og stórhátíðum. Þá getur þú passað upp á að klára úr skápunum áður en fríið hefst eða til að rýma fyrir hátíðarkræsingum.
  • Gefðu afgöngunum nýtt líf
    Gefðu afgöngunum nýtt líf og berðu fram á lystugan hátt. Í töflunni fyrir neðan eru fjölmargar hugmyndir sem þú getur nýtt þér, en þær byggja á þessari umfjöllun.
Gefa
  • Gefa vinum og kunningjum
    Ef þú eldar of mikið er hægt að deila afgöngum með nágrönnunum eða bjóða vinum í mat. Það er líka hægt að taka með sér afganga í vinnuna og bjóða kollegunum.
  • Gefa samtökum matargjafir
    Mörg samtök á Íslandi taka gjarnan við matargjöfum frá fólki eða fyrirtækjum sem eiga umfram matvæli. Ef fólk er að flytjast búferlum erlendis og er að tæma hjá sér skápana, verið er að afþíða frystinn eða ef kartöfluuppskeran í garðinum var sérstaklega stór, þá er um að gera að beina matvælunum áfram og gefa með sér. Í sumum tilfellum er tekið við afgangs mat úr stórum veislum svo sem brúðkaupum, afmælum og fermingum og einnig erfidrykkjum.
    Hafa verður í huga að skjólstæðingar þessara samtaka eru oft viðkvæmir fyrir svo ekki er ætlast til að fólk mæti á staðinn með matargjafir nema búið sé að hafa samband við viðkomandi samtök fyrir fram.
  • Gefa mat í frískápa
    Frískápar eru samfélagslegt verkefni og snúast um það að ísskápar eru staðsettir á aðgengilegum stöðum þar sem almenningur getur annað hvort komið með mat eða tekið sér mat. Fyrirtækjum er einnig frjálst að gefa mat í frískápana. Frískáparnir eru staðsettir víðsvegar um landið:

    101 Reykjavík, við Andrými Bergþórugötu 20: https://www.facebook.com/groups/473406413883265
    105 Reykjavík, við Laugarneskirkju, Kirkjuteigsmegin:
    https://www.facebook.com/groups/1068408003878173
    107 Reykjavík, við Neskirkju, Neshaga megin (Norðurhlið):
    https://www.facebook.com/groups/2369822753157161/
    108 Reykjavík, við Hjálpræðisherinn, Austurhlið:https://www.facebook.com/groups/1016441485602028
    111 Reykjavík, Völvufell:https://www.facebook.com/groups/279645384356812
    221 Hafnarfjörður Vellir:https://www.facebook.com/groups/1040015926849592
    262 Ásbrú, Reykjanesbær:https://www.facebook.com/groups/654971909350507
    270 Mosfellsbær við Kjarna https://www.facebook.com/groups/1847834258893485/?ref=share
    600 Akureyri, við Amtsbókasafnið:
    https://www.facebook.com/groups/416151787240378
    800 Selfoss, við Nytjamarkaðinn https://www.facebook.com/groups/646422340102704/?ref=share

  • Matargjafir á Facebook
    Þó nokkrir hópar um matargjafir hafa myndast á Facebook. Þar með hefur myndast aðgengilegur vettvangur fyrir þá sem vilja gefa mat og þá sem þurfa á matargjöfum að halda. Best er einfaldlega að leita á Facebook undir matargjöf eða -gjafir að hóp á þínu landsvæði.
Molta
  • Flokka
    Mörg sveitafélög bjóða upp á að fólk flokki lífrænan úrgang. Það er algjört glapræði að urða lífrænan úrgang með öðru almennu rusli í stað þess að koma honum í réttan farveg svo hann geti orðið að moltu.
  • Búa til moltu
    Fyrir þau sem búa ekki í sveitafélögum sem taka á móti lífrænum úrgangi bendum við fólki á heimajarðgerð, þ.e.a.s. að umbreyta lífrænum úrgangi heimilis í moltu. Þessi molta nýtist svo sem jarðvegsbætir sem gerir jarðveginn frjótsamari og léttari.

Hvað get ég lært?

Með því að læra meira um matvæli og matseld er auðveldara að forðast matarsóun. Hér er hægt að læra meira um hvernig hægt er að nýta mismunandi matvæli, geyma þau og elda eitthvað ljúffengt úr þeim.

Uppskriftir

Viltu fleiri hugmyndir að uppskriftum sem nýta matinn vel?

Geyma

Hvernig geymast mismunandi matvæli best?

Afgangar

Hvernig er hægt að gefa mismunandi afgöngum nýtt líf?

Afhverju er matarsóun vandamál?

Matarsóun er léleg nýting á auðlindum og fjármunum sem og hefur í för með sér óþarfa neikvæð áhrif á umhverfið. Með því að draga úr matarsóun má nýta dýrmætar auðlindir jarðar betur og spara fé.

Þriðjungi þess matar sem er framleiddur er sóað

Þriðjungi þess matar sem er framleiddur er sóað samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eða um 1.3 milljarðar tonna af mat á hverju ári í heiminum. Á Norðurlöndunum er sóað um 3.5 milljónum tonna af mat árlega! Matvælum sem er sóað hefðu mögulega getað brauðfætt milljónir manna og minnkað þá hungursneyð sem steðjar að ýmis staðar í heiminum. Þar að auki hefur framleiðsla matar oft talsverð neikvæð umhverfisáhrif sem þjóna þá engum tilgangi ef maturinn er ekki nýttur og eykur verulega við magn úrgangs sem þarf að urða. Hér er einnig um sóun á fjármunum að ræða þar sem heimili og stóreldhús kaupa í rauninni oft of mikið af mat. Því fæst töluverður samfélagslegur, umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur af því að minnka matarsóun.

Fólk heldur oft að matarsóun skipti ekki máli því matur er lífrænn og brotnar auðveldlega niður. Það er rétt í þeim skilningi að þegar við hendum epli í skógi þá brotnar það eðlilega niður og gefur að mestu frá sér CO2. Hins vegar er meirihluti þessa úrgangs á Íslandi urðaður sem krefst sífellt meira landsvæðis og leiðir til myndunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þegar lífrænn úrgangur brotnar niður við loftfirrðar aðstæður, líkt og myndast við urðun, þá myndast metan gas. Metan er 21 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð og því töluvert verri.  Þótt málið sé flókið og margir aðilar komi að því geta nokkrar einfaldar breytingar á venjum okkar og rekstri fyrirtækja haft veruleg áhrif.

 

Matarsóun skilar sér í 8–10% af hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNEP) gaf 2021 út skýrslu sem leggur mat á umfang matarsóunar á heimsvísu. Þeirra niðurstaða er að samanlagt endi 17% af mat í matvöruverslunum, á matsölustöðum og á heimilum í ruslinu. Áætlað er að þetta skili sér í 8 – 10% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Ef matarsóun á framleiðslu- og vinnslustigi og dreifingu er tekið inn í myndina verður umfangið enn meira og losunin sömuleiðis. Matvæla– og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 3,3 milljón kílótonn (3,3 Gt) af losun koldíoxíðígilda  í heiminum á ári megi rekja til matarsóunar. Þetta er sérstaklega alvarlegt þar sem matarsóun veldur losun sem myndast að óþörfu.

Matarsóun er mest inni á heimilum, eða ríflega 60% af heildarsóuninni samkvæmt UNEP. Þetta á sérstaklega við í ríkari löndum, eins og til dæmis Íslandi.  Mælingar á matarsóun á Íslandi benda til þess að hver einstaklingur hendi í kringum 90 kíló af mat árlega. Í hefðbundinni fjögurra manna vísitölu fjölskyldu er því hent 360 kílóum á ári. Það eru nær 7  kíló af mat á viku! Þetta umfang svipar til hinna Evrópulandanna. Til dæmis sýna rannsóknir frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi að hver einstaklingur hendir í kringum 80 kíló af mat á ári.

Þessi matarsóun endar sem úrgangur, en meðhöndlun úrgangs var uppspretta 5% af heildarlosun Íslands árið 2019 (án landnotkunnar). Þessi losun á sér fyrst og fremst stað þegar lífbrjótanleg efni, svo sem matarleifar, brotna niður á urðunarstað með tilheyrandi losun metangass. Losun Íslands vegna matarsóunnar er enn meiri ef tekið er tillit til þeirrar losunar sem myndast við framleiðslu af mat sem aldrei verður borðaður.

Í aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2030 er rætt um áhrif matarsóunar á losun. Þar er lögð áhersla á að draga eigi úr losun frá úrgangi um 59% miðað við árið 2018. Þar sem matvæli eru stór hluti urðaðs úrgangs á Íslandi þá mun minni matarsóun óhjákvæmilega draga úr urðun og tilheyrandi losun. Þess vegna er það hluti að aðgerðum stjórnvalda að draga úr matarsóun samhliða því að bann við að urða lífrænan úrgang og urðunarskattur verði settur á. Þessi áhersla íslenskra stjórnvalda er einnig í samræmi við alþjóðlegar áherslur. Í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem sett voru 2015 er lagt til að eigi síður en árið  2030 hafi sóun matvæla á smásölumarkaði og hjá neytendum minnkað um helming á hvern einstakling um heim allan. 

 

Verkefni sem draga úr matarsóun

Yfirlit yfir fyrri og núverandi verkefni sem hafa haft það að markmiði að draga úr matarsóun

Myndskreyting gegn matarsóun

Virðiskeðjan

Matarsóun á sér stað á öllum stigum virðiskeðju framleiddra matvæla; við framleiðslu, vinnslu, flutning, sölu, og neyslu. Matarsóun hefur í för með sér ýmis neikvæð umhverfisáhrif, mikla sóun á fjármunum og samfélagsleg áhrif þar sem þeim mat sem er sóað væri mögulega hægt að nýta annars staðar í heiminum. Hér má sjá einfaldaða mynd sem sýnir virðiskeðju framleiddra matvæla. Matvælum sem er sóað á öllum stigum keðjunnar.

1. Framleiðsla

Uppspretta matvæla liggur í náttúruauðlindum okkar. Framleiðsluferlið er þó yfirleitt töluvert flóknara og getur haft áhrif á umhverfi, samfélag og efnahag. Ýmislegt þarf við framleiðslu matvæla, m.a. fjármagn, vatn, plöntuvarnarefni og jarðefnaeldsneyti. Framleiðsla matvæla getur leitt til losunar gróðurhúsalofttegunda, jarðvegs- og vatnsmengunar, jarðvegsrýrnunar, minnkunar líffræðilegs fjölbreytileika og aukinnar úrgangsmyndunar.

2. Vinnsla

Matvæli eru oft unnin talsvert áður en þau rata í búðir eða á disk neytenda. Hrísgrjón, salt og sykur eru hreinsuð, dýrum er slátrað, korn malað og afurðirnar unnar í hinar ýmsu vörur. Þessi vinnsla getur kostað mikla peninga og orku, m.a. í formi raforku eða jarðefnaeldsneytis. Einnig fer töluvert hráefni í bæði vöruna sjálfa og umbúðir á vörunni. Líkt og í framleiðsluferlinu, þá getur vinnsluferlið haft í för með sér ýmis konar umhverfisáhrif, þá helst losun gróðurhúsalofttegunda, jarðvegs- og vatnsmengun og úrgangsmyndun.

3. Flutningur

Þegar varan er fullunnin og búið að pakka henni inn í viðeigandi umbúðir þarf að koma vörunni til neytenda. Matvæli eru flutt með bílum, flugvélum og skipum um allan heim. Því felur þetta skref virðiskeðjunnar í sér mikla brennslu á jarðefnaeldsneyti sem leiðir til mengunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þetta á sérstaklega við á Íslandi þar sem stór hluti þeirra matvæla sem við neytum er fluttur inn með tilheyrandi kolefnisspori. Flutningur matvæla eykur einnig slit á innviðum, t.d. vegum, með tilheyrandi kostnaði.

4. Verslun

Á endanum rata innpakkaðar vörurnar í verslanirnar. Mikil vinna, orka og fjármagn fer í framsetningu á vörunum til að hvetja neytendur til að kaupa þær. Þrátt fyrir það selst ekki nærri því allt og mikil matarsóun og úrgangsmyndun á sér því stað.

5. Neysla

Þá er neytandinn loks kominn með afurðirnar á diskinn, hvort sem það er heima eða á veitingastað. Peningur, orka og tími fór í að verða sér út um það sem er á disknum. Í vestrænum heimi er matarsóun hvað mest á þessu stigi.

Áhugaverðar tölur

Þrjár viðhorfskannanir hafa verið gerðar af Maskínu fyrir hönd Umhverfisstofnunar árið 2015, 2017 og 2021. Fleiri en þúsund þátttakendur voru spurðir í hvert sinn og byggir á tilviljunarúrtaki úr Þjóðskrá og svörin eru svo viktuð til að endurspegla þjóðina útfrá kyni, aldri og búsetu.

20 mín - Meðal notkunartími plastpoka

Reyna að lágmarka matarsóun

Losun

%

Fleiri draga úr matarsóun umhverfisins vegna núna en 2015

35% - Endurvinnsla á umbúðaplasti á Íslandi síðustu ár

Telja að umræða um matarsóun hafi aukist

Rannsóknir á matarsóun

Yfirlit yfir tölfræði og rannsóknir á matarsóun

Myndskreyting gegn matarsóun

Kennsluefni og vinnugögn

Hér má finna fræðsluefni um matarsóun sem hægt er að hala niður í prentvænum útgáfum. Einnig má nálgast einfalda og skýra glærusýningu um matarsóun sem upplagt er að nýta í fræðsluerindi eða í kennslustund í t.d. heimilisfræði eða samfélagsfræði.

Glærusýning

Nýtist í kennslustund til að fræða um matarsóun

Nemendahefti

Af stað með úrgangsforvarnir

Kennarahefti

Af stað með úrgangsforvarnir

Húsráð

Plakat sem þú getur sótt og prentað út

Notaðu nefið

Plakat sem þú getur sótt og prentað út

Virðiskeðja

Plakat sem þú getur sótt og prentað út