Reglur um plast

Leiðbeiningar fyrir einstaklinga

Reglur um einnota plast og burðarpoka úr plasti

Mikil áhersla hefur verið á að draga úr burðarplastpokum og notkun á einnota plastvörum. Ástæðurnar fyrir þessu eru hversu mikið af auðlindum við erum að nota, hversu stuttur líftími þeirra er og hvað er að finnast mikið plastrusli (og örplasti) á ströndum og í lífríki sjávar. Stjórnvöld hafa brugðist við með því að setja ýmis takmörk á tilteknar plastvörur. Hér verður fjallað um hvaða áhrif þessi lagasetning mun hafa á neytendur og hvaða lausnir standa til boða.

Þeim sem vilja fræðast meira um ástæður og tilgang lagasetningarinnar er bent á spurt og svarað síðu Stjórnarráðsins um einnota plastvörur og um burðarpoka úr plasti. Fyrirtækjum er bent á upplýsingar á síðunni um burðarpoka og einnota plastvörur

Hvað felst í reglunum um plastpoka?

Markmið laganna er ekki að banna plastpoka, heldur minnka magnið

Í upphafi 2021 tóku í gildi ný lagaákvæði sem banna það að verslanir bjóði viðskiptavinum upp á burðarpoka úr plasti til þess að koma vörunum sínum heim. Verslanir mega heldur ekki senda vörur heim til fólks í plastpokum. Það er hinsvegar áfram leyfilegt að kaupa plastpoka á búðarhillum. Tilgangur laganna er því ekki að banna plastpoka, heldur minnka magnið af plastpokum sem við notum. Árið 2017 notaði hver Íslendingur árlega 105 plastpoka á mann.  Það þýðir að venjuleg vísitölufjölskylda var að nota 420 plastpoka á ári! Það er mun meira heldur en þarf til að nota í ruslið, sérstaklega ef maður er duglegur að flokka.

Hvað á ég að nota til að koma vörunum mínum heim?

Græna lausnin

Munum eftir margnota pokanum

Það er mikilvægt að leita leiða til þess minna sig á að taka með sér margnota pokann út í búð. Hér koma nokkur ráð um það sem gott er að gera:

 • Búa til minnisþulu eða lag, til dæmis að söngla þetta við ryksugulagið „Mundu bara frasann, að setja pok‘ í vasann, trallalara, trallalara, trallararamm“.
 • Setja burðarpoka á aðgengilegan stað á kvöldin, s.s. stinga í vasann, setja í hjólakörfu, hanskahólf, eða ofan í tösku.
 • Setja minnismiða í augnhæð sem sést greinilega áður en við förum út.
 • Hengja burðarpoka á snaga nálægt útidyrirhurð.

Margnota pokinn er umhverfisvænasta lausnin til þess að koma vörunum sínum heim. Með því að nota sama pokann aftur og aftur þá drögum við úr óþarfa sóun og  minnkum umhverfisáhrifin af líftíma hvers poka, sama úr hvaða efni þeir eru. Allir pokar hafa nefnilega einhver áhrif á umhverfið. Áhrif pokanna eru mismunandi eftir því úr hvaða efni þeir eru. Sumir pokar bera hátt kolefnisspor, aðrir pokar hafa neikvæð áhrif á lífríki sjávar ef þeir sleppa út í náttúruna og enn aðrir pokar henta illa til endurnotkunnar. En allir pokar eiga það sameiginlegt að því oftar sem við notum þá, því minni neikvæð umhverfisáhrif.

Höfum samband við búðir og biðjum um pokalán

Við höfum öll áhrif á umhverfið með okkar persónulegu hegðun. En einstaklingurinn getur haft enn meiri áhrif ef honum tekst að virkja aðra. Ein leið er að hafa samband við búðir og biðja þær um að bjóða upp á pokalán í stað pokasölu. Hægt er að benda búðum á að það mikilvægasta sé ekki eignarhald á pokanum, heldur að koma vörunum heim. Einnig er hægt að virkja vini sína í að senda samskonar pósta eða benda félagssamtökum á þetta.

Gula lausnin

Kaupum margnota poka

Eins og áður sagði eru mikilvægt að nota margnota poka. En margnotapokar sem eru notaðir eins og einnota eða fánota eru ekkert endilega æskilegri en einnota pokar. Það er því mikilvægt að búa ekki til hversdagsleika þar sem til eru tugir margnota poka á heimilinu kaupa svo margnota poka í stað einnota poka í hvert skipti sem pokinn gleymist heima. Það er ekki umhverfisávinningur í því að skipta út mörgum einnota pokum fyrir marga margnota, það hefur í raun í för með sér aukin umhverfisáhrif þar sem framleiðsla margnota poka hefur í för með sér margföld umhverfisáhrif miðað við einnota. Það er því mikilvægt að kaupa ekki fleiri margnota poka en maður þarf á að halda og leitast við að hámarka líftíma pokans.

Rauða lausnin

Skiptum einnota út fyrir einnota

Það er heldur ekki góð lausn fyrir umhverfið að skipta út einni einnota vöru fyrir aðra einnota, sama úr hvaða efni hún er. Það getur skapað ný umhverfisvandamál að skipta út burðarpokum úr plasti fyrir pappírspoka. Þó að einnota pappírspokar hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki sjávar þar sem þeir brotna auðveldlega niður þá tekur það fjórum sinnum meiri orku að framleiða þá en hefðbundinn plastpoka[1]. Auk þess taka þeir mikið pláss í flutningum og henta illa til endurnotkunnar þar sem þeir rifna auðveldlega. Þó að það sé leyfilegt að kaupa einnota pappírspoka þá er það langt í frá æskilegt.

 

[1] http://www.niassembly.gov.uk/globalassets/documents/raise/publications/2011/environment/3611.pdf

Ef ég kaupi ekki poka, hvað á ég þá að nota undir ruslið?

Flokka meira, nýta betur

Einfalt mál – því meira sem þú flokkar heima hjá þér því færri poka þarftu, því endurvinnsluefni má setja laust í tunnurnar og í gáma á grenndar- og endurvinnslustöðvum. Flestir fá líka óhjákvæmilega alltaf einhverja poka inn á heimilið sem hægt er að nota í staðinn, t.d. brauð- og kartöflupoka, poka undan fatnaði eða leikföngum. Sum sveitarfélög leyfa fólki líka að setja ruslið sitt í tunnurnar án þess að það sé í pokum, t.d. í Reykjavík.

Ætti ég að nota maíspoka (lífbrjótanlega) poka undir ruslið mitt?

Já, þú getur áfram keypt þá á búðarhillum

Það er í góðu lagi að nota lífbrjótanlega poka undir ruslið. En auðvitað felur það í sér enn minni sóun að sleppa bara pokunum alveg.

Þó að seljendur megi ekki lengur afhenda viðskiptavinum sínum maíspoka til að koma vörunum heim, þá er ennþá hægt að kaupa þá í rúllum á búðarhillum til að nota í ruslið. Bannið er til þess gert að minnka notkun á plastpokum en ekkert endilega að stöðva alveg notkun. Áður en bannið tók gildi keyptu Íslendingar mun fleiri poka heldur en þeir náðu að nota fyrir ruslið sitt. Ef við kaupum maíspoka í rúllum fyrir ruslið getum við passað upp á að kaupa ekki meira magn heldur en við þurfum á að halda.

Hvaða einnota plastvörur eru bannaðar?

Einnota plastvörur sem eiga sér aðgengilega staðgengla

Eftir 3. Júlí 2021 má ekki flytja inn eða framleiða eftirfarandi vörur:

 • bómullarpinna úr plasti (nema þeir falli undir lög um lækningatæki)
 • plasthnífapör (gaffla, hnífa, skeiðar og matprjóna)
 • plastdiska
 • sogrör úr plasti (nema þau falli undir lög um lækningatæki)
 • hræripinna fyrir drykkjarvörur, úr plasti,
 • plastprik á blöðrur
 • matarílát úr frauðplasti, með eða án loks, undir tilbúinn mat sem er alla jafna neytt beint úr ílátinu. T.d. ílát undir skyndibita eða ísrétti.
 • drykkjarílát úr frauðplasti, þ.m.t. tappar þeirra og lok. T.d. ílát undir kaffi, mjólkurhristinga eða aðra hristinga.
 • allar vörur úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun, t.d. burðarpoka úr sk. oxó-plasti.

Annað verður ekki bannað.

Hvað á ég að nota í staðinn fyrir það sem er bannað?

Græna lausnin

Sleppum öllum óþarfa

Áður en við skiptum út vörunum sem verið er að banna fyrir staðgengilsvörur er gott að spyrja sig hvort maður þurfi virkilega vöruna.

Þarf ég hræripinna fyrir kaffið mitt eða get ég látið mér nægja að mjólkin blandast við kaffið þegar ég helli henni út í?

Þarf ég að drekka þennan drykk með sogröri eða get ég drukkið af glasbrúninni?

Þarf ég plastprik á þessa blöðru eða er nóg að binda í hana snæri?

Gula lausnin

Notum margnota

Ef svarið við spurningum að ofan er að maður þurfi á tiltekinni vöru að halda þá er hægt að skipta þessum einnota plastvörum fyrir margnota staðgengla. Ef við notum sömu vöru aftur og aftur þá verður umhverfissporið af hverri notkun af vörunni á endanum lítið. En ef við skiptum yfir í margnota vörur er mikilvægt að vörurnar séu í reynd margnota. Það leysir engan umvherfisvanda að kaupa mikið magn af margnota vörum sem við notum sjaldan og kaupum margnota vörur aftur og aftur.

Rauða lausnin

Skiptum einnota út fyrir einnota

Einungis er lagt til að banna þær vörur sem auðveldlega má skipta út fyrir aðrar sambærilegar plastlausar vörur. Algengt er að þessar vörur séu í staðinn úr pappír, tré, bambus eða bómull. Þó að þessar vörur valdi ekki sama skaða á lífríki sjávar og plast vörurnar þá hafa þær engu að síður í för með sér umhverfisáhrif. Alltaf þegar auðlindir eru nýttar til að framleiða vöru sem er bara notuð einni sinni og henni svo hent þá hefur það í för með sér mikil áhrif á umhverfið.  Þessvegna er ekki æskilegt að skipta út einnota fyrir einnota, þó að það sé vissulega leyfilegt.

Dæmi um einnota plastlausar lausnir í staðinn fyrir það sem er bannað eru baðmullarpinnar úr bambus, ætar skeiðar, tré hnífapör án plasthúðar, sogrör úr pappa, hræripinnar úr tré og matarílát úr pappa án plasthúðar.

Hvað má ekki lengur vera ókeypis?

Bollar og matarílát úr plasti

Sölustaðir mega ekki lengur gefa viðskiptavinum sínum einnota plastbolla, plastglös, plastílát og plastlok undir mat og drykk án þess að taka fyrir það gjald. Í staðinn verða þeir að taka greiðslu fyrir ílátið sem maturinn og drykkurinn er afhentur í. Þetta geta til dæmis verið plastglös fyrir gosdrykki, bjór, safa, smoothie eða hristinga. Þetta á líka við um einnota plastbox, -skálar, og -bakka undir mat. Ef ílátin eru úr náttúrulegum efnum en eru með loki úr plasti þá þarf líka að taka gjald fyrir það. Það sama á við ef ílátin eru úr lífplasti eða plasthúðuð. Gjaldið sem seljendur taka verður að koma fram á kassakvittun.

Bollar og glös, þ.m.t. lok 

Matarílát…

…með eða án loks

Verður take-away matur dýrari?

Það eru seljendur sem ákveða hvað ílátin kosta

Það eru seljendur sem ákveða sjálfir upphæð gjaldsins sem þeir leggja á einnota plastbolla, plastglös og matarílát úr plasti. 

Sama hvaða gjald seljandi ákveður að setja er mikilvægt að neytendur átti sig á því að þeir geta í mörgum tilvikum sleppt því að borga gjaldið fyrir einnota plastbolla, plastglös og matarílát úr plasti með því að koma með eigin ílát að heiman. Lagaákvæðin minna neytendur á að þegar þeir kaupa einnota ílát þá fylgir því alltaf ákveðinn kostnaður, sem hingað til hefur verið bakaður inn í verðið á vörunni. Það er því ekki til neitt sem heitir ókeypis ílát, en nú verður það enn skýrara en áður að ílátum fylgir kostnaður, þar sem gjaldið þarf alltaf að koma fram á kvittun.

Það eru seljendur sjálfir sem ákveða hvort þeir taka á móti margnota ílátum viðskiptavina að heiman eða ekki. Ef neytendur geta valið milli þess að kaupa einnota plastumbúðir eða koma með eigin ílát þá þarf það að vera verðmerkt á skýran hátt. Til dæmis ef hægt að fá kaffi í fjölnota götumál og í einnota pappírsbolla með plasthúð, þá þarf að koma fram á matseðli hvað kaffið kostar án einnota pappírsbollans, og hvað einnota pappírsbollinn kostar.

Dæmi

Fyrir 3. júlí 2021 Eftir 3. júlí 2021

Drykkir:

Kaffi: 450 kr

Latte: 500 kr

 

 

 Matur:

Falafel: 1500 kr

Drykkir:

Kaffi: 450 kr

Latte: 500 kr

Götumál: 15 kr

Take away: Drykkur + 15 kr

Matur:

Falafel: 1500 kr

Matarílát: 30 kr

Take away: 1500 kr + 30 kr

Þarf ég að borga fyrir allar plastumbúðir utan um mat og drykk?

Nei, reglurnar eiga fyrst og fremst við um útrétti (e. take-away)

Nei, neytendur munu til dæmis ekki þurfa að borga sérstakt gjald fyrir plastumbúðirnar sem eru utanum vörurnar sem þú kaupir út í búð, eins og jógúrt í dós, skvísur og grænmeti í plasti. Reglurnar eiga fyrst og fremst við um take-away eða sambærilegar aðstæður. Líklegast verður algengast að neytendur þurfi að borga þetta gjald á matsölustöðu við útrétti (e. take-away), en geta líka þurft að borga á fleiri stöðum. Til dæmis er algengt að viðskiptavinir fái afhent götumál húðuð plasti á kaffihúsum, plastglös undir bjór á börum og ís í boxi með plasthúð í ísbúðum, sem má ekki lengur gefa ókeypis eftir 3. Júlí 2021.  Ef matvörubúðir selja mat á sambærilegan hátt og matsölustaðir, til dæmis eru með salatbar, þá þurfa þær líka að taka greitt fyrir einnota box ef þau innihalda plast. Seljendur þurfa líka að taka gjald við heimsendingu á mat og drykk í plastílátum.

Mér finnst gjaldskyldan ekki nóg, hvaða get ég gert meira?

Vera virkur og virkja aðra

Gjaldskyldan mun án efa hafa áhrif á marga, en hún eins og sér er líklega ekki nóg til þess að koma í veg fyrir ofnotkun á einnota plastumbúðum. Rannsóknir hafa sýnt að gróðinn sem hlýst af því að fá afslátt við það að koma með margnota ílát hefur lítil sem engin áhrif á hegðun, á meðan tapið sem fólk upplifir við það að þurfa að borga gjald fyrir umbúðirnar gerir það líklegra að fólk skipti yfir í margnota[1]. En betur má ef duga skal, og sömu rannsóknir benda til þess að ef gjaldskylda er samtvinnuð öðrum aðgerðum hefur hún meiri áhrif. Neytendur geta lagt sitt af mörkum að hafa samband og benda fyrirtækjum á lausnir;

Til dæmis er hægt að biðja matsölustaði að:

 • Leyfa sjálfsagfreiðslu fyrir þá sem koma með margnota ílát og hleypa þeim á undan í röðinni
 • Geyma einnota ílát undir búðarborði svo viðskiptavinir þurfi að biðja um þær sérstaklega
 • Bjóða upp á mataríláta lán
 • Hvetja matsölustaði til að setja sér verklag í samræmi við ráðleggingar MAST um hvernig tekið er á móti margnota ílátum

 

[1] T.d. https://www.mdpi.com/2071-1050/10/3/873

Hvað verður að vera merkt?

Hvað felst í merkingaskyldunni?

Ef eftirfarandi vörur innihalda plast þarf að merkja þær frá og með 3.júlí 2021:

 1. Dömubindi og túrtappa
 2. Blautþurrkur
 3. Sígaretturfiltera
 4. Bolla og glös úr plasti að hluta til eða öllu leiti

Merkingarnar líta eins út í öllum ESB löndunum og sýna hvaða neikvæðu áhrif það hefur á lífríki sjávar að henda þessum vörum í náttúruna vegna þess að þær innihalda plast.

Þýða nýju merkingarnar að ég eigi að flokka þessar vörur sem plast?

Nei, það á að flokka vörurnar eins og áður

Nei, merkingarnar eru ekki flokkunarmerkingar. Þær fræða neytendur um að vörur sem margir gera sér ekki grein fyrir að innihaldi plast geri það í raun og veru. Það er mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir að þessar tilteknu vörur innihaldi plast þar sem vörurnar valda skaða í lífríki sjávar ef þeim er hent í náttúruna, líkt og allar aðrar plastvörur gera. Merkingarnar eru áminning um að þessar tilteknu vörur þurfi annaðhvort að flokka eða setja í ruslið. Merkingarnar hafa ekki för með sér neina breytingu á flokkun, þannig að best er að flokka eins og maður gerði áður en merkingarnar voru settar á, og leita eftir upplýsingum um hvernig eigi að flokka rétt hjá sínum sorphirðuaðila eða sveitarfélagi.

Til dæmis á áfram að henda dömubindum, blautþurrkum, og sígarettustubbum í almennt rusl.

Einnota glös á að flokka á sama hátt og gert var áður en merkingaskyldan tók gildi.

Mér finnst merkingarnar ekki gera nóg, hvaða get ég gert meira?

Skipta yfir í margnota og virkja aðra

Í stað þess að passa að einnota vörur sem innihalda plast fari í réttan farveg er hægt að nota tækifærið og skipta yfir í margnota staðgengla. Í stað dömubinda og túrtappa er hægt að nota túrnærbuxur og álfabikar. Í stað blautklúta er hægt að nota þvottapoka. Í staðinn fyrir einnota glös og bolla er hægt að nota margnota mál. Þó að aldrei sé hægt að mæla með reykingum, þá eru rafrettur engu að síður fjölnota staðgengill sígaretta.

Afhverju eru ekki merkingar á einnota grímum um að þær innihaldi plast?

Einnota grímur innihalda plast og má ekki henda í náttúruna

Regluverkið um einnota plastvörur var samþykkt áður en covid faraldurinn skall á og á þeim tíma vissum við ekki hversu umfangansmikil notkunin á einnota grímum yrði í samfélaginu. En það er vissulega rétt að einnota grímur innihalda plast. Þetta er staðreynd sem ekki allir gera sér grein fyrir, og því væri heppilegt ef einnota grímur væru líka merktar með upplýsingum um að varan innihaldi plast. Ef einnota grímum er hent í náttúrunni þá valda þær skaða í lífríki sjávar, líkt og aðrar plastvörur.

Afhverju eru ekki mismunandi reglur fyrir lífplast og hefðbundið plast? 

Lífplasti fylgja kostir og gallar

Er lífplast ekki betra?

 

Stutta svarið er að lífplasti fylgja bæði kostir og gallar. Lífplast (e. bioplastics) er í raun ekki ein tegund af plasti, heldur fjöldinn allur af plasttegundum sem hver um sig hefur ólíka eiginleika með mismunandi áhrif á umhverfið.

Gallar:

 • Framleiðsla sums lífplasts hefur í för með sér meiri umhverfisáhrif en framleiðsla á hefðbundnu plasti.
 • Sumt lífplast er framleitt úr lífmassa en hefur sömu uppbyggingu og hefðbundið plast og brotnar því ekki niður.
 • Annað lífplast brotnar bara niður ef sérstakar aðstæður eru til staðar m.a. hvað varðar rakastig, hitastig og örveruflóru.
 • Þegar lífbrjótanlegt plast brotnar niður (t.d. á urðunarstað) verða til gróðurhúsalofttegundir eins og metan.
 • Lífplast skapar rugling við flokkun, þar sem lífplast sem brotnar ekki niður á að flokka sem plast en niðurbrjótanlegt lífplast á að flokka sem almennan eða lífrænan úrgang.

Kostir

 • Sumt lífplast er gert úr hliðarafurðum af annarri matvælaframleiðslu og hefur þá í för með sér minni umhverfisáhrif en hefðbundið plast.
 • Lífbrjótanlega plastpoka er hægt að nýta til moltugerðar, sem er ekki hægt í tilfelli hefðbundinna plastpoka.
 • Á sumum urðunarstöðum er hægt að safna saman metangasi sem myndast þegar lífplast brotnar niður og nýta sem eldsneyti.
 • Ef lífplast eru niðurbrjótanlegt þá valdur það ekki eins miklum skaða á lífríkinu og hefðbundið plast ef það sleppur út í náttúruna.

Í lögunum er ekki gerður greinamunur á hefðbundnu plasti og lífplasti. Báðar gerðir eru settir undir sama hatt. Hvort það sé gott eða slæmt fyrir umhverfið er erfitt að segja til um, en allir ættu að geta verið sammála því að mikið magn af einnota plasti, sama úr hverju það er gert, getur aldrei talist gott fyrir umhverfið.

Lagaákvæðin gilda um allar þessar gerðir plasts