Bann við afhendingu á plastpokum

Leiðbeiningar fyrir fyrirtæki

Bann við afhendingu á burðarpokum úr plast

Mikil áhersla hefur verið á að draga úr burðarplastpokum. Ástæðurnar fyrir þessu eru hversu marga poka við erum að nota, hversu stuttur líftími þeirra er og hvað er að finnast mikið af pokum (og örplasti úr pokum) á ströndum og í lífríki sjávar.

Frá og með 1. janúar 2021 er verslunum óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti á sölustöðum vara. Ekki skiptir máli hvort það er með eða án gjalds.

Til að geta framfylgt banninu er því gagnlegt að hafa skilning á því

  1. hvað plast er
  2. hvað burðarpoki er
  3. hvað er átt við með afhendingu á sölustað vara.

Einnig eru hér hugmyndir að lausnum, og þær flokkaðar eftir umhverfislegum ávinningi þeirra.

Til viðbótar við þessar leiðbeiningar hefur Umhverfis- og auðlindaráðuneytið tekið saman algengustu spurningar og svör þar sem meðal annars er fjallað um markmið bannsins.

Hvað er plast?

Skilgreiningin á plasti er mun víðtækari en margir gera sér grein fyrir.

Skilgreiningin á plasti er mun víðtækari en margir gera sér grein fyrir. Vegna þessa geta jafnvel vörur sem eru merktar sérstaklega af söluaðila sem plastlausar fallið undir bannið. Við könnumst öll við hinn hefðbundna einnota burðarpoka úr plasti en það er mögulega erfiðara að átta sig á því að burðarpokar sem eru með svipaðri áferð og vefnaðarvörur, eins og pokar úr óofnu pólýprópýleni, eru líka plastpokar í skilningi laganna. Einnig er mikilvægt að átta sig á því að allt lífplast er líka plast.

Framleiðsla plasts felur í sér að fjölliðum er breytt með efnafræðilegum hætti og í mörgum tilfellum eru íblöndunarefnum bætt við. Það er hægt að ímynda sér að fjölliður séu eins og hús sem byggt er úr legókubbum. Legókubbarnir eru þá byggingareiningarnar, á meðan fjölliðurnar er afurðin eða húsið. Þessi legóhús geta orðið til með náttúrulegum ferlum eða af mannavöldum. Ef það er manneskjan sem tekur legókubbana og raðar þeim saman, þá telst ferlið ekki lengur náttúrulegt, og slíkt legóhús myndi þá skilgreinast sem plast. Uppruni legókubbana, þar að segja hvort þeir eigi uppruna sinn í jarðefnaeldsneyti eða lífmassa, skiptir þannig ekki máli þegar skilgreining plasts er skoðuð. Í staðinn skiptir meðhöndlunin máli og hvort íblöndunarefnum hafi verið bætt við eða ekki.

Tökum dæmi til skýringar. Vörur úr bómull vaxa ekki tilbúnar úti á túni, heldur á sér stað einhver meðhöndlun áður en bómull verður að vöru. Í grunninn er bómull náttúrulegt efni, en svo er líka hægt að meðhöndla bómull þannig að hún verði að plasti. Þegar bómull er vafinn í efni á sér ekki stað nein meðhöndlun á bómullarfjölliðunni, og því heldur efnið áfram að vera náttúrulegt. Ef hinsvegar efnafræðilegar aðferðir eru nýttar til að búa til efnið eða út í hana eru sett íblöndunarefni breytist bómullin í plast. Með öðrum orðum er það manneskjan sem byggir bómullarhúsið, og bómullin því ekki lengur náttúruleg. Þess vegna er erfitt að koma með almennar fullyrðingar um hvaða efni er plast og hvað ekki. Það er hægt að taka hvaða lífmassa sem er og breyta því í plast. Því er mikilvægt að fá nákvæmar upplýsingar um íblöndunarefni og framleiðsluferli burðarpoka til að ákvarða hvort um plast sé að ræða. Á markaði eru algengustu plastlausu pokarnir pappírspokar og náttúrulegir bómullarpokar.

Svona er plast skilgreint í lögum:

Plast er efni sem samanstendur af fjölliðu, eins og hún er skilgreind í reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH), sem íblöndunarefnum eða öðrum efnum kann að hafa verið bætt við og getur nýst sem aðalbyggingarefni fullunninnar vöru, þ.m.t. plast sem getur brotnað niður með eðlisfræðilegu og lífrænu niðurbroti, en undanskildar eru náttúrulegar fjölliður sem hefur ekki verið breytt með efnafræðilegum aðferðum.

 

 

 

Dæmi um poka sem bannað er að afhenda á sölustað vara

Klassískur plastpoki

Lífbrjótanlegur plastpoki

Óofinn pólýprópýlen poki

Spói

Er lífplast líka plast?

Stutta svarið er já

Stutta svarið er, já, allt lífplast er líka plast samkvæmt lagalegu skilgreiningunni í kaflanum hér að ofan (sjá Hvað er plast?). Það er því ekki lengur leyfilegt að afhenda burðarpoka úr lífplasti á sölustöðum vara. Þetta á til dæmis við um burðarpoka úr maíssterkju, oft kallaðir maíspokar.

Þetta á því bæði við um lífplast af lífrænum uppruna og lífplast sem gert er úr jarðolíu. Þetta á líka jafnt við um lífbrjótanlegt lífplast og lífplast sem brotnar ekki niður.

Nánari umfjöllun um hvað lífplast er, umhverfisáhrif þess og hvernig á að flokka það.

 

 

 

Dæmi um gerðir af plasti sem óheimilt er að þeir burðarpokar sem maður afhendir á sölustað vara séu úr

Hvað er burðarpoki úr plasti?

Poki, með eða án halda, gerður úr plasti, sem afhentur er neytanda á sölustað vara

Það skiptir ekki máli hvort pokinn er þykkur eða þunnur, stór eða lítill, einnota eða fjölnota. Allir burðarpokar sem eru úr plasti, sama hvernig plasti, er óheimilt að afhenda neytenda á sölustað vara.

 

Til að átta sig betur á því hvað bannið felur í sér getur verið mikilvægt að gera greinarmun á umbúðum og burðarpokum. Hægt er að líta á burðarpoka sem flutningsumbúðir sem auðvelda neytendum meðhöndlun og flutning á nokkrum vörum heim. Lögin fela hins vegar ekki í sér bann við að afhenda neytendum vörur í plastumbúðum. 

 

 

 

Dæmi um plastumbúðir sem eru ekki burðarpokar úr plasti

Plastumbúðir utan um vörur seldar saman í pakka

Rúlla með ruslapokum úr plasti

Hvað er afhending á sölustað vara?

Bannað er að afhenda burðarpoka úr plasti á sölustað vara

Það er mikilvægt að átta sig á því að burðarpoka bannið er ekki almennt bann við sölu á burðarpokum úr plasti, heldur einungis bann við afhendingu á sölustað vara, hvort sem heldur með eða án endurgjalds. Þetta þýðir að söluaðili má ekki bjóða viðskiptavinum sínum upp á burðarpoka úr plasti við sölu á vörum, t.d. til að koma vörum heim.

Með sölustað vara er átt við staðinn þar sem salan fer fram. Í hefðbundnum verslunum fer sala fram við afgreiðslukassa. Afgreiðslukassi getur verið hvort sem heldur sjálfvirkur eða mannaður. Þegar um netverslun er að ræða geta heimili orðið sölustaður vara og er því einnig óheimilt að afhenda neytendum burðarpoka úr plasti ef varan hefur verið pöntuð í gegnum netið og send heim.

Með afhendingu er átt við að viðskiptavinum sé boðið upp á burðarpoka úr plasti til að koma vörum sem keyptar voru í verslunni heim, eða þeir á annan hátt gerðir aðgengilegir viðskiptavinum í sama tilgangi. Í lagaákvæðunum er ekki kveðið á um almennt bann við sölu á burðarpokum úr plasti, og því geta verslanir eftir sem áður haft til sölu burðarpoka úr plast í hillum inni í sölurými verslana. Burðarpokar úr plasti eru þá seldir á sama hátt og aðrar vörur sem seldar eru í versluninni, t.d. sem vara á búðarhillu.

Dæmi um sölustað vara

Mannaðir og sjálfvirkir afgreiðslukassar

Heimsending frá netverslun

Afgreiðsluborð á kaffihúsi

Lausnir

Verslanir geta farið mismunandi leiðir við að tryggja eftirfylgni laganna. Umhverfisstofnun hefur sett saman nokkrar hugmyndir að lausnum sem hefur verið raðað eftir umhverfislegum ávinningi.

Græna lausnin

Það er hægt að líta á bannið sem tækifæri til þess að æfa sig í hringrásar hugsunarhætti með því að leita leiða til að draga úr auðlindanotkun. Hringrásar hugsunarháttur veltir upp áleitnum spurningum um burðarpoka. Kannski ætti frekar að líta á burðarpoka sem þjónustu í staðinn fyrir einnota vöru? Afhverju ekki að lána viðskiptavinum burðarpoka í staðinn fyrir að afhenda þeim þá?

 

Hvað felst í hringrásar lausninni?

Þar sem bannið er hluti af innleiðingu hringrásarhagkerfisins er mikilvægt að forgangsraða lausnum þar sem dregið er úr auðlindanotkun og/eða þær nýttar betur. Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem leitast er við að draga úr auðlindanotkun með að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi með því að tryggja að hægt sé að viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Það er hægt að líta á bannið sem tækifæri til þess að æfa sig í þessum hugsunarhætti. Innleiðing hringrásarhagkerfisins gefur samkeppnisforskot til framtíðar þar sem kröfur neytenda um umhverfisvænni viðskiptahætti verða æ háværari.

Í þessu sambandi er mikilvægt að taka fram að markmiðinu er ekki náð bara með að bjóða viðskiptavinum upp á að kaupa fjölnota poka. Umhverfisáhrifin af margnota pokum eru nefnilega háð því að hver einstaklingur eigi fáa en góða poka sem hann notar oft og lengi. Fjölnota pokar sem verða í reynd einnota eða fánota eru líklegir til að hafa enn verri áhrif á umhverfið en einnota pokar. Því er nauðsynlegt að skipuleggja starfssemina þannig að hún styðji við hringrásina og auðveldi neytendum að endurnota fjölnota poka. Umhverfi og innviðir verslana skipta lykilmáli í því að auka líkurnar á að neytendur noti burðarpokana sína aftur og aftur.

Í grunninn snýst hringrásarhagkerfið um endurnotkun, endurframleiðslu, endurvinnslu, viðgerðir og deiliþjónustur. Hér fyrir neðan verður fjallað um hvernig verslanir geta hugað að öllum þessum þáttum í tengslum við burðarpoka. Miðað við markmið laganna er ekkert sem kemur í veg fyrir að verslanir láni viðskiptavinum burðarpoka í stað þess að afhenda þeim þá.

Deila

Skapaðu möguleika fyrir viðskiptavini að deila.

Burðarpoka ætti kannski frekar að líta á sem þjónustu heldur en vöru. Þegar vörur eru verslaðar í búð er mikilvægast fyrir neytendann að koma vörunum heim á skilvirkan hátt, ekki að eignast burðarpoka. 

Þægindi skipta oft neytendur miklu máli, en með því að bjóða upp á þjónustu sem gerir hringrás burðarpoka þægilegri er hægt að loka hringnum. Nú þegar hafa sprottið upp fyrirtæki sem hafa endurskilgreint kaffimál og matarílát sem þjónustu. Þessi lausn dregur úr losun og vörurnar verða ekki strax að rusli sem fer beint í urðun, lendir í sjónum eða í vegakantinum. Það er ekkert því til fyrirstöðu að nýta sama hugsunarhátt fyrir deiliþjónustur fyrir poka. Á svipaðan hátt og deiliþjónustur fyrir rafhjól og rafskutlur hafa gert, væri hægt að merkja fjölnota burðarpoka, matarílát og drykkjarílát með QR kóða og leigja þá í gegnum app.

Einnig er hægt að ímynda sér lausnir sem taka við og deila út pokum á sjálfvirkan hátt, ekki ósvipað sjálvirkum móttökustöðvum skilagjaldsumbúða.

En það er líka til útfærslur á þessum safnstöðvum sem krefjast ekki tæknilegra innviða.  Það stuðlar til dæmis að hringrásar hugsun að bjóða upp á svokallaðar pokastöðvar. Algengt er að sjálfboðaliðar safni gömlum stuttermabolum og öðrum vefnaði og saumi úr því fjölnota poka sem síðan eru boðnir fólki til láns í verslunum. Einnig er hægt að hafa slíkar pokastöðvar fyrir fjölnota poka verslunarinnar.

Hvernig sem þetta er leyst er þetta lausn sem ætti að forgangsraða ef það er mögulegt.

Gera við

Skipulegðu hvernig eigi að sinna viðhaldi.

Viðgerðir geta lengt líftíma poka verulega og passar vel við deilihugsunina. Þegar fyrirtæki kaupa inn fjölnota poka er mikilvægt að velja góða poka sem eru sterkir og endast vel og auðvelt er að gera við. Fjölnota pokar geta orðið skítugir og það geta komið á þá göt. Það er mikilvægt að starfssemin skipuleggji hvernig pokarnir eiga að skila sér aftur til verslunarinnar og skilgreina hver innan fyrirtækisins er ábyrgur fyrir viðhaldi. Þannig haldast pokar heilir og hreinir og pokasvæði snyrtileg.

Endurnota

Bjóddu viðskiptavinum margnota poka úr endurunnum efnum.

Ef keyptir eru fjölnota pokar ætti að leitast við að kaupa poka úr endurunnu efni, þ.e.a.s. að þeir séu gerðir úr efnum sem þegar hafa verið notuð allavega einu sinni.

Hvað varðar fjölnota burðarpoka er einnig æskilegt að velja poka með áreiðanlega umhverfisvottun, s.s. Svansvottun, OEKO- TEX eða aðra sambærilega vottun til að minnka neikvæð umhverfisáhrif af framleiðslu fjölnota poka.

Endurframleiðsla

Bjóddu viðskiptavinum margnota poka, matar- og drykkjarílát úr endurunnum efnum.

 

Ef keyptir eru fjölnota pokar, matar- og drykkjarílát ætti að leitast við að kaupa poka úr endurunnu efni, þ.e.a.s. að þeir séu gerðir úr efnum sem þegar hafa verið notuð allavega einu sinni.

 

Hvað varðar fjölnota burðarpoka er einnig æskilegt að velja poka með áreiðanlega umhverfisvottun, s.s. Svansvottun, OEKO- TEX eða aðra sambærilega vottun til að minnka neikvæð umhverfisáhrif af framleiðslu fjölnota poka.

Endurvinna

Leitast við að nota poka sem eru endurvinnanlegir.

Ef verslanir kaupa inn fjölnota poka til láns er æskilegast að leitast eftir því að pokarnir séu endurvinnanlegir. Þegar pokarnir eru orðnir úrsérgengnir er mikilvægt að skila þeim í endurvinnsluna á réttan hátt.

Gula lausnin

Ef ekki er hægt að nota hringrásar lausnina er hægt að minnka þægindin við að kaupa burðarpoka úr plasti.

Hvað felst í því minnka þægindin við kaupin?

Ef ekki er hægt að nota hringrásar lausnina er hægt að fylgja lögum með því að selja burðarpoka úr plasti sem vöru, í stað þess að afhenda burðarpoka á sölustað vara. Áfram er heimilt að selja burðarpoka innan verslunarinnar, t.d. í búðarhillum. Þá skiptir ekki máli úr hvaða efni þeir eru, hvort þeir eru litlir eða stórir, þunnir eða þykkir, fjölnota eða einnota. Það er löglegt að selja burðarpoka úr plasti sem hverja aðra vöru.

Þar sem rannsóknir sýna að raunveruleg kauphegðun neytenda á burðarpokum tengist fyrst og fremst aðstæðunum þar sem kauphegðunin á sér stað í og þægindunum við kaupin[1] þá er eitt áhersluatriðanna að minnka þægindin og aðgengið að einnota burðarpoka úr plasti. Með því að staðsetja einnota burðarpoka langt frá sölustað varanna, geta aðrir kostir eins og fjölnota pokar orðið þægilegri í samanburði. Þannig getur staðsetning einnota burðarpoka óbeint leitt til þess að fleiri muna eftir því að taka fjölnota pokann sinn með í búðina. Ef þessi leið er farin ætti að leggja áherslu á að reyna að útiloka einnota lausnir við afgreiðslukassa, óháð því úr hvaða efni notast er við.

Þessi lausn útilokar ekki þann umhverfisvanda sem fylgir notkun á burðarpokum úr plasti þar sem þeir standa ennþá til boða og líklegt að margir velji að kaupa þá áfram.

 

[1] Heidbreder, L. M., Bablok, I., Drews, S., & Menzel, C. (2019). Tackling the plastic problem: A review on perceptions, behaviors, and interventions. Science of the total environment668, 1077-1093. https://doi.org/10.1016/j.scitotenv.2019.02.437

Tékk merkið sýnir dæmi um staði þar sem heimilt er að selja burðarpoka úr plasti

Rauða lausnin

Það er ekki æskilegt að skipta út einni einnota vöru fyrir aðra einnota vöru, þó  svo að það sé löglegt.

Hvað felst í því að skipta út einnota fyrir einnota?

Auðveldasta leiðin til að bregðast við banninu er að bjóða viðskiptavinum upp á einnota pappírspoka á sölustað vara í stað plastpoka. Slík lausn er þó ekki æskileg, því það tekur fjórum sinnum meiri orku að framleiða einnota pappírspoka miðað við einnota burðarpoka úr plasti[1]Það er þó mikilvægt að átta sig á því að ef plastpokar sleppa út í náttúruna, þá brotna þeir ekki niður, og halda áfram að valda skaða um ókomin ár. En óháð forsendum er hægt að fullyrða að mikil notkun á einnota burðarpokum, hvort sem þeir eru úr pappír eða plasti, skapa álag á umhverfið. Þess vegna er ekki æskilegt að skipta út einni einnota vöru fyrir aðra einnota vöru, þó svo að það sé löglegt.

 

Að sama skapi er ekki æskilegt að þeir burðarpokar úr plasti sem seldir eru sem vara á búðarhillum verði í reynd einnota burðarpokar úr plasti. 

 

[1] http://www.niassembly.gov.uk/globalassets/documents/raise/publications/2011/environment/3611.pdf

 

 

 

Dæmi um burðarpoka sem heimilt er að afhenda á sölustað vara

Bréfpoki

Bómullarpoki

Nýsköpunar lausnin

Sumar lausnir eru enn ekki til, en geta orðið til.

Hvað felst í nýsköpunnar lausninni?

Sumar lausnir eru enn ekki til. Hægt er að nýta sér lögin um plast sem tækifæri til að skapa nýjar lausnir. Margar nýsköpunarlausnir eru í pípunum, og má sem dæmi nefna vinningshafa nýsköpunarverðlauna Ellen McArthur Foundation.

Það er hægt að hugsa út fyrir kassann og fara í hugmyndavinnu um hvort og hvernig er hægt að afhenda vörur án þess að notast við poka, hvort sem þeir eru margnota, einnota, úr plasti, úr pappír eða eitthvað annað. Hvernig er hægt að vinna í því að sú þjónusta sem þið eruð að selja sé í auknum mæli hringræn? Hvernig getum við dregið úr sóun á öllum stigum? Hvernig getum við tekið aukna ábyrgð á þeim vörum sem við seljum áður en hún kemur til okkar og eftir að hún fer frá okkur?

 

Burðarpoka ætti kannski frekar að líta á sem þjónustu heldur en vöru. Það mikilvægasta fyrir neytendur er að koma vörunum heim á skilvirkan hátt, ekki að eignast burðarpoka. Þægindi skipta oft neytendur miklu máli, en með því að bjóða upp á þjónustu sem gerir hringrás burðarpoka þægilegri er hægt að loka hringnum. Nú þegar hafa sprottið upp fyrirtæki sem hafa endurskilgreint kaffimál og matarílát sem þjónustu. Þessi lausn dregur úr losun og vörurnar verða ekki strax að rusli sem fer beint í urðun, lendir í sjónum eða í vegakantinum. Það er ekkert því til fyrirstöðu að nýta sama hugsunarhátt fyrir deiliþjónustur fyrir poka. Á svipaðan hátt og deiliþjónustur fyrir rafhjól og rafskutlur hafa gert, væri hægt að merkja fjölnota burðarpoka, matarílát og drykkjarílát með QR kóða og leigja þá í gegnum app.

Einnig er möguleiki á því að búa til nýjar gerðir af sem eru ekki úr plasti. Til þess að það sé hægt er mikilvægt að hafa góðan skilning á því hvað sé ekki plast. Í tilskipun Evrópusambandsins frá júní 2019 kemur fram að efni sem er úr náttúrulegum fjölliðum og hefur ekki verið breytt með efnafræðilegum hætti sé ekki plast. Í töflunni að neðan er listi yfir efni sem telst ekki til plasts samkvæmt skilgreingu Evrópusambandsins. Listinn er ekki tæmandi, og allt það efni sem er úr náttúrulegum fjölliðum sem hefur ekki verið breytt með efnafræðilegum hætti eða sett í íblöndunarefni er ekki plast.

Dæmi um náttúrulegar fjölliður sem leyfilegt væri að hafa í burðarpokum sem afhentir eru á sölustað vara

Náttúrulegar fjölliður framleiddar með líffræðilegri myndun í dýrum

Fjölsykrur og fjölliður byggðar á þeim: kítín, hýalúrónsýra

Prótein og byggð á því: kasein, kollagen, gelatín, hár, keratín, silki

Aðrar: fjölfosföt

Náttúrulegar fjölliður framleiddar með líffræðilegri myndun í plöntum og þörungum

Fjölsykrur og fjölliður byggðar á þeim: agaragar, algínat, sellulósi1, hemicellulose, inúlín, levan, pektín, sterkja (amylopectin, amylose), xanthan

Aðrar: cutin, óbreytt lignin, polyphosphates, suberin

Blöndur af náttúrulegum fjölliðum og öðrum náttúrulegum efnasamböndum: Bómull, glúten, latex
Náttúrulegar fjölliður framleiddar með líffræðilegri myndun í sveppum

Fjölsykrur og fjölliður byggðar á þeim: α-1,3-glúkan, kítín, kítósan

Prótein og fjölliður byggð þar á: glýkóprótein

Aðrar: fjölbrigði (PMLA), fjölfosföt

Náttúrulegar fjölliður framleiddar með líffræðilegri myndun í bakteríum

Fjölsykrur og fjölliður byggðar á þeim: algínat, bakteríusellulósi, curdlan, dextran, pullulan, xanthan

Aðrir: ε-pólý-L-lýsín, hýalúrónsýra, pólý-γ-glútamínsýra, fjölhýdroxýalkanoat (PHA), fjölfosföt