Spurt og svarað

Hér að neðan má finna svör við þeim spurningum sem ekki tókst að svara á opnum fyrirlestri um ábyrga notkun plasts í atvinnulífinu þann 13. október 2022
Af hverju var mælt sérstaklega gegn lífplasti nema það sé ekki lífbrjótanlegt en Marea sem er flott fyrirtæki sett fram með þaraplast, einnig matvörubúð lofsömuð fyrir að nota ekkert hefðbundið plast og er að nota niðurbrjótanlegt plast? Er hægt að útskýra þetta misræmi?

Eins og kom fram í fyrirlestrinum hefur reynslan sýnt okkur að eins og staðan er í dag hefur lífplast ekki verið sú lausn við plastvandanum sem vonir höfðu verið bundnar við. Ástæður þess eru nokkrar en stærst vegur sennilega skortur á réttum upplýsingum til neytenda um hvernig skuli flokka og endurvinna umbúðirnar og sú staðreynd að flestar iðnaðarjarðgerðir á landinu ráða illa við jarðgeranlegt plast svo það endar oftar en ekki í urðun þar sem það brotnar hægt ef einhvern tímann niður. 

Þetta er eitthvað sem reynslan þurfti að kenna okkur og kom í ljós eftir að notkun lífplasts hófst hér á landi. Þeir aðilar sem hafa nýtt sér slíkar umbúðir fyrir sínar vörur hafa gert það í góðri trú um að þær séu raunverulega að koma í veg fyrir að plastmengun í umhverfinu og eiga hrós skilið fyrir að þora að prófa sig áfram með nýjar lausnir. Frumkvöðlar sem taka að sér að reyna að þróa og prófa nýjar lausnir munu stundum reka sig á veggi, það er eðli nýsköpunar en ef þeir halda áfram að reyna munu þeir líka finna lausnir sem reynast vel og munu skipta verulegu máli fyrir lausn vandans. Þess vegna þarf nýskapandi starf hvatningu, rými og leyfi til að gera mistök, það þarf samt helst að gerast áður en lausnin er nýtt á stórum skala svo þess vegna getum við ekki mælt með lífplasti í stærra samhengi eins og staðan er í dag. 

Við vonum að lífplast verði hluti af lausninni við plastvandanum í nánustu framtíð. Til að það gerist þurfa framleiðendur lífbrjótanlegs plasts að tryggja að það sé sannarlega lífbjrótanlegt við þær aðstæður sem eru til staðar í iðnaðarjarðgerð á Íslandi og sömuleiðis fræða sína neytendur um rétta flokkun.  

Marea hlaut Bláskelina fyrir fyrir þróun á náttúrulegri filmu úr þörungahrati sem ætluð er fyrir grænmeti og ávexti og er plastlaus lausn. Þau þróa nú einnig lífplast úr þara og verður spennandi að sjá hvort það reynist fýsilegur kostur í stað hefðbundins plasts og væntum við þess að þau séu að gera sitt allra besta til að tryggja þess að svo verði.

Góðan daginn. Kannski aðeins út fyrir bara plast, en fyrir úrgang almennt. Þegar ný lög um flokkun taka gildi um áramótin, hvaða áhrif hefur það á fyrirtæki. Er fyrirtækjum skylt að flokka og hvar er hægt að finna auðlesanlegar leiðbeiningar um það? þ.e. lögin tala bara um heimilisúrgang, en ekki beint fjallað um fyrirtæki.

Þegar talað er um heimilisúrgang í lögunum þá á það við um blandaðan úrgang og úrgang sem hefur verið sérstaklega safnað bæði frá heimilum og rekstraraðilum. Hér er hægt að lesa um breytingarlögin fyrir lög um meðhöndlun úrgangs þar sem fram kemur í 12. grein að sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi [skuli] fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. 

Nú er dæmi um að fyrirtæki eru að sérsafna þessu óvinsæla plasti í t.d. heilu pressugámana. En staðan er sú að það plast kemst ekki í endurvinnslu vegna þess að það er ekki verið að safna nægilega miklu og vantar staði þar sem fyrirtæki geta tekið sig saman og safnað þessu óvinsæla á einhverja staði. Hvorki Pure North né Plastplan vilja taka við þessum "óvinsælu" plastefnum. Svo að það er ekki bara lífplast sem endar í urðun eða brennslu. Hvað er til ráða?

Hér er væntanlega verið að vísa í plastefni sem innihalda skaðleg efni og/eða eru samsett og henta því illa til endurvinnslu. Besta lausnin er að sjálfsögðu að hætta notkun slíkra plastefna en eins og staðan er í dag enda þessi efni í brennslu erlendis, þ.e.a.s ef þeim hefur verið sérsafnað. Brennsla til orkuendurnýtingar er skárri kostur en urðun.

Er það ekki rétt að árið 2025 þarf allt plast að innihalda amk 25% PCR?

PCR stendur fyrir post-consumer recycled content og er því spurt um hvort allt plast þurfi ekki að innihalda a.m.k. 25% endurunnið plast árið 2025. Nei það er ekki svo, ákvæðin um ákveðið hlutfall endurunnins plasts eiga einungis við um einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur. Í tilskipun Evrópusambandsins er kveðið á um að einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur skuli vera að lágmarki 25% úr endurunnu plasti árið 2025. Árið 2030 skulu flöskurnar vera að lágmarki 30% úr endurunnu plasti. Nánar verður kveðið á um samsetningu á einnota plastflöskum í reglugerð ráðherra. Þó að reglugerðin sé ekki enn komin út er vitað að hún fylgir markmiðum Evrópusambandsins. Nánari upplýsingar um regluverkið má finna á síðunni Saman gegn sóun.

Þú ert einnig að tala um PLA sem er ekki hægt að bræða hér heima þegar kemur að lífplasti. Það er mjög ódýrt efni og þess vegna er verið að nota það. Væri ekki ábyrgara að gera skil á því að PLA er ekki ákjósanlegt lífplast EN alls ekki eins lausnin. Samanber Marea ofl.

Til eru margar gerðir lífplasts líkt og sjá má í umfjöllun okkar hér á vefnum Saman gegn sóun undir Hvað er plast? Eins og staðan er í dag er ákjósanlegasta lífplastið það sem er ólífbrjótanlegt og hægt að endurvinna með öðru plasti, t.d. bio-PE, bio-PET, bio-PA og bio-PP. 

Við vonum að aðrar gerðir lífplasts verði hluti af lausninni við plastvandanum í nánustu framtíð. Til að það gerist þurfa framleiðendur þess að tryggja að lífbrjótanlegt plast sé það sannarlega við þær aðstæður sem eru til staðar í iðnaðarjarðgerð á Íslandi og sömuleiðis fræða sína neytendur um rétta flokkun.  

Verður urgangur.is líka á ensku?

Já við stefnum að því.

Afhverju er enn verið að leyfa PVC?

Vinna stendur nú yfir við að koma PVC inn í efnalöggjöf Evrópusambandsins, REACH, en hér má finna nýjustu skýrslu Evrópusambandsins um efnið. Viðbúið er að á næstu árum verði takmarkanir á PVC teknar upp í íslenska löggjöf. 

Það þarf alltaf að sanna að efni eru skaðleg þegar takmarka eða banna á þau með löggjöf. Ítarlegt mat fer þá fram þar sem metið er hvort staðgöngukostir séu til staðar, hver kostnaður þeirra er, ávinningur, umhverfislegur kostnaður, áhrif á lífríki, heilsu og fleira. Eftir matið fer það svo fyrir framkvæmdarstjórn ESB sem setur það í samráðsferli sem getur síðan leitt til þess að það endar í löggjöf þeirra. Þá tekur Ísland það upp í sín lög vegna EFTA samningsins oftast um 2 árum síðar eftir mat EFTA skriftstofunnar og ráðuneyta landanna.

Vitiði hvort það þurfi að greiða fyrir notkun á þessum Fenúr merkingum á umbúðum? Er að spyrja fyrir hönd fyrirtækis.

FENÚR hefur þýtt og staðfært nýtt og samræmt norrænt merkingakerfi fyrir úrgang. Merkingarnar byggja á dönskum úrgangsmerkingum og norrænu samstarfi um samræmdar merkingar í úrgangsmálum. Samræmt, einfalt og gott merkingakerfi er mikilvægt til að stuðla að betri flokkun og er notkun merkinganna því mikilvægur hlekkur í hringrásarhagkerfinu. Á vef FENÚR segir: Allir mega nota merkin endurgjaldslaust en þeim má ekki breyta á nokkurn hátt.

Þegar skipt er yfir úr plastumbúðum í pappaumbúðir þá er pappinn oft húðaður með fráhrindandi efni. Eru þau efni ekki oft þannig að þau losna út í matvæli? Hefur það verðið skoðað.

Fráhrindiefni eins og PFAS geta fundist bæði í plasti og pappa. Þessi efni finnast jafnframt í ýmsum öðrum vörum en þau hafa þann eiginleika að fæla frá fitu, óhreinindum og vatni. Svo já þessi efni hafa fundist bæði í pappa og plasti, það hefur eitthvað verið skoðað í pappaumbúðum sbr. hér en algengast er að finna efnin í umbúðum fyrir fituríkan mat. PFAS efnin eru 4700 talsins og einungis brot af þeim hafa verið bönnuð. Meira um PFAS efni hér. Borðbúnaður sem er með umhverfisvottun eins og Svaninn eða Evrópublómið inniheldur ekki PFAS efni. 

Pappaumbúðir fyrir matvæli eru oftar en ekki húðaðar með plasti. Það plast sem algengast er í slíka húðun er PE filma. Slíkar filmur innihalda ekki íblöndunarefni sem smitast geta í matvælin.

Hvernig í heiminum stendur á því að við á Íslandi getum ekki bara haft eina lausn fyrir allt landið... við erum nú ekki svo mörg!

Ef spurningin á við um flokkunarkerfi fyrir úrgang þá mun nú um áramótin vera skylda fyrir fyrirtæki og heimili að flokka allan heimilisúrgang og skulu samræmdar merkingar vera notaðar við meðhöndlun úrgangs. Úr breytingarlögum fyrir lög um meðhöndlun úrgangs:

12.gr.

10 gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Sérstök söfnun og flokkun úrgangs.

Koma skal upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi þar sem það er nauðsynlegt til að uppfylla ákvæði 1. mgr. 11. gr. og koma í veg fyrir að úrgangur blandist öðrum úrgangi eða öðrum efniviði með aðra eiginleika. Sérstök söfnun skal vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Heimajarðgerð er þó heimil sem og söfnun lífúrgangs með öðrum úrgangi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 4. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 57. gr. Sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi skal fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Söfnunin skal fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila. Þó er heimilt að hafa sameiginlega söfnun úrgangs fyrir aðliggjandi lóðir að því tilskildu að öll söfnun úrgangs færist af viðkomandi lóðum. Enn fremur er heimilt að víkja frá ákvæði um söfnun innan lóðar þegar um er að ræða rúmfrekan úrgang, svo sem garðaúrgang, sem safnað er á söfnunar- eða móttökustöð. Sveitarfélögum er heimilt að uppfylla skyldu til sérstakrar söfnunar á gleri, málmum og textíl með söfnun í grenndargáma, að því tilskildu að það fyrirkomulag söfnunar stuðli að því að markmiðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim verði náð, sbr. 1. mgr. 8. gr. Sérstök söfnun á spilliefnum skal fara fram í nærumhverfi íbúa. Sveitarfélög skulu útfæra nánara fyrirkomulag sérstakrar söfnunar í samþykkt um meðhöndlun úrgangs.

Má samræma umbúðir sem notaðar eru utan um ferskar sjávarafurðir sem fluttar eru erlendis og gætu verið endurunnar þar?

Það væri frábært að sjá sjávarútveginn útfæra slíkar lausnir.