Raftæki
Það er til mikils að vinna að kaupa færri og vandaðari raftæki, nota þau lengur og skila þeim á endurvinnslustöðvar svo hægt sé að koma verðmætum efnum aftur í hringrásina.Tækjaþon
„77% Evrópubúa telja sig persónulega bera ábyrgð á að bregðast við til að takmarka loftslagsbreytingar samkvæmt könnun um græn umskipti frá október 2022“
Oft er hagkvæmara að fleygja vörum sem hægt er að gera við og því er þeim oft hent þó það sé í raun ótímabært. Þetta leiðir árlega til 35 milljóna tonna af úrgangi, 30 milljóna tonna af óþarfa notkun auðlinda og rúmlega 260 milljóna tonna af losun gróðurhúsalofttegunda í ESB. Jafnframt er tap neytenda af því að velja endurnýjun í stað viðgerðar metið á tæpa 12 milljarða evra á ári.
Hvað eru raftæki?
Skilgreiningin á raf- og rafeindatækjum í íslenskum lögum er svohljóðandi: búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið og er hannaður til notkunar við rafspennu sem fer ekki yfir 1000 volt þegar um er að ræða riðstraum og ekki yfir 1500 volt þegar um er að ræða jafnstraum, þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af búnaðinum.
Ísskápar, myndavélar, fartölvur, snjallsímar, blikkskór, kynlífstæki, rafknúin leikföng, snjallúr, heyrnatól, hrærivélar, borvélar, rafrettur, saumavélar og þvottavélar eru allt dæmi um raftæki!
Höldum verðmætum auðlindum í hringrás
Raftæki eru orðin órjúfanlegur hluti af daglegu lífi okkar. Notkun þeirra hefur gjörbylt því hvernig við vinnum, lærum, skemmtum okkur og eigum í samskiptum, og gert líf okkar auðveldara og þægilegra en nokkru sinni fyrr.
Raftæki eru oftar en ekki búin til úr endingargóðum efnum eins og plasti og málmum sem margir hverjir eru auk þess sjaldgæfir og verðmætir. Þrátt fyrir það eru flest raftæki notuð í tiltölulega stuttan tíma þar sem þau teljast ekki lengur verðmæt eða nytsamleg.
Raftækjaúrgangur er sá straumur heimilisúrgangs sem vex hvað hraðast á heimsvísu og lítill hluti þessara tækja skilar sér til endurvinnslu. Það er því til mikils að vinna að koma raftækjum úr hinu línulega hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi.
Hvað er til ráða?
Það er margt sem við getum gert til að vera partur af lausninni. Það mikilvægasta er að draga úr neyslu og kaupa einungis það sem við þurfum á sama tíma og við aukum líftíma þeirra raftækja sem við eigum.
Kaupa minna
- Neytendavald
Með því að kaupa minna geta neytendur til lengri tíma haft áhrif á magn framleiðslu raftækja í heiminum. Þar með draga þeir úr auðlindanýtingu og neikvæðum áhrifum á umhverfi og samfélag.
- Kaupa færri raftæki og leggja áherslu á það sem við notum og velja vandað
Raftæki eiga það til að daga uppi í skápunum á heimilinu, til dæmis í eldhúsinu. Gott er að ígrunda vel hvort að þörf sé fyrir þessi raftæki áður en þau eru keypt því oftar en ekki eru þau aðeins notuð fyrstu vikurnar. Þau raftæki sem eru í daglegri eða mikilli notkun ætti að velja vel með það að markmiði að þau endist til lengri tíma.
- Lána og leigja
Raftæki sem ekki eru í daglegri notkun getur verið sniðugt að fá lánuð hjá vinum og vandamönnum eða leigja hjá tækjaleigum eins og t.d. Munasafn RVK Tool Library, Byko, Húsasmiðjunni o.fl..
Nota lengur
- Minni neikvæð áhrif
Með því að velja vönduð raftæki, ganga vel um þau og tryggja þar með að þau séu nothæf sem lengst er hægt að draga verulega úr umhverfisáhrifum.
- Gera við
Með viðgerðum getum við lengt endingartíma raftækja. Með einfaldri leit á vefnum má finna fjöldan allan af leiðbeiningum um hvernig það er gert, auk þess sem hægt er að fara á námskeið eða leita sér aðstoðar hjá fagmanni. Notkun viðgerðaþjónustu hefur dregist saman eftir því sem vöruverð lækkar en oft er hægt að tvöfalda endingartíma með því að nýta sér slíka þjónustu. Hér fyrir neðan er listi yfir nokkra aðila sem gera við raftæki en leit á netinu gefur fleiri niðurstöður.
Beco
Icephone
Rafbraut
Rafbreidd
Rafha ehf
Sónn Rafeindastofan
Origo
Smartfix
Tölvuland
Tölvulistinn
Reddingakaffi
Munasafn RVK Tool Library
Veistu um fleiri viðgerðaraðila? Sendu okkur línu á samangegnsoun@samangegnsoun.is
- Fara vel með
Með því að fara vel með raftæki má lengja líftíma þeirra. Til dæmis með því að þrífa þau reglulega því ryk og önnur óhreinindi festast auðveldlega í öllum misfellum. Gott er að reyna að forðast miklar hitabreytingar því þær geta haft áhrif á líftíma batterísins. Einnig er mikilvægt að henda reglulega út gögnum eða færa þau yfir á annað form til að spara pláss og halda í hraða virkni tækisins.
Kaupa notað
- Kostirnir við notað
Með því að kaupa notuð raftæki eflist hringrásarhagkerfið og mikilvægar auðlindir sparast. Á vefnum er oft hægt að finna fínustu raftæki til sölu sem hafa aðeins verið notuð í stutta stund. Það er því um að gera að skoða þann markað vel áður en farið er út í næstu verslun til að kaupa nýja græju beint úr kassanum.
Koma í áframhaldandi notkun
- Finnum notuðu farveg
Það er mikilvægt að neytendur axli ábyrgð á þeim hlutum sem þeir kaupa og hafi í huga hvað verður um þá að notkun lokinni. Með því að hugsa vel um raftækin er líklegra að þau séu nothæf öðrum þegar við þurfum þeirra ekki lengur. Það er því um að gera að hafa það í huga hvernig best er hægt er að hámarka líftíma tækjanna. - Gefa eða lána vinum eða fjölskyldu
Hvernig væri að hafa deilihagkerfi innan fjölskyldunnar og/eða vinahópsins? Sum raftæki eru notuð aðeins örsjaldan á ári og þá er upplagt að annað hvort gefa þau eða lána öðrum í nærumhverfinu. Einnig eru síður á samfélagsmiðlum þar sem hægt er að gefa hluti áfram og þar með stuðla að betri nýtingu.
Skila á réttan stað
- Nothæf raftæki
Hægt er að skila öllum minni nothæfum raftækjum svo sem sjónvörpum, skjám, símum, lömpum og þ.h. til endurnotkunar í nytjagám Góða hirðisins. - Ónothæf raftæki
Raftæki flokkast í fjóra flokka á móttökustöðvum Sorpu:
Kæli-og frystitæki – Í flokkinn fara öll kælitæki, frystiskápar og frystikistur.
Sjónvörp og skjáir – Mikilvægt er að skjáir brotni ekki þar sem spilliefni geta þá borist út í umhverfið.
Smá raftæki – Í flokkinn fara öll minni raftæki. Athugið að fjarlægja rafhlöður úr tækjum þegar það er mögulegt og flokka sér.
Stór raftæki – Í flokkinn fara öll stærri raftæki (svokölluð hvítvara) nema kælitæki (sér flokkur). - Ljósaperur
Í flokkinn fara allar tegundir ljósapera. Athugið að mikilvægt er að perur brotni ekki þar sem spilliefni geta þá borist út í umhverfið.
Hvað verður um efnið? Ljósperur eru teknar í sundur hjá viðurkenndum vinnsluaðilum. Efni hættuleg umhverfinu eru flokkuð frá og meðhöndluð með viðeigandi hætti. Endurvinnsluefni, t.d. málmar, eru flokkuð frá og komið í réttan farveg.
- Rafhlöður
Hægt er að skila notuðum rafhlöðum á endurvinnslustöðvar, til spilliefnamóttöku og til sölu- og dreifingaraðila (bensínstöðvar, raftækjaverslanir og fleiri) rafhlaða og rafgeyma. Athugið að gamlar rafhlöður geta lekið og því er ekki gott að geyma þær lengi. Mikilvægt er að fjarlægja rafhlöður úr leikföngum (t.d. hnapparafhlöður) og úr endurhlaðanlegum raftækjum. Þannig er dregið úr íkveikjuhættu og tryggt að meðferð skaðlegra efna sé örugg.
Hvað verður um efnið? Rafhlöður fara til viðurkenndra móttökuaðila spilliefna þar sem þær eru flokkaðar og meðhöndlaðar á réttan hátt og komið til eyðingar eða í endurvinnslu.
- Rafgeymar
Setja á rafgeyma á borð í gámi nr. 16 hjá Sorpu, starfsmenn sjá svo um flokkun.
Ekki er tekið við rafgeymum úr rafmagnsbílum. Þeim skal skilað til viðurkenndra móttökuaðila spilliefna.
Hvað verður um efnið? Rafgeymar fara til viðurkenndra vinnsluaðila þar sem þeir eru flokkaðir og meðhöndlaðir á réttan hátt og komið til eyðingar eða í endurvinnslu.
- Raftæki, rafhlöður og rafgeymar eiga alls ekki heima í almennu tunnunni.
- Nánari upplýsingar varðandi flokkun raf- og rafeindatækja og flokkun ljósapera, rafgeyma og rafhlaðna má finna á vef Sorpu.
Hvers vegna geta raftæki verið vandamál?
Heimsframleiðsla á raftækjum hefur aukist hratt á undanförnum áratugum og er viðbúið að eftirspurnin haldi áfram að aukast í takt við nýja strauma, tísku og tækni. Framþróun í gervigreind, hlutanet (e. internet of things) og mannfjöldaaukning spila þar stóran þátt. Á sama tíma sjáum við að líftími raftækjanna styttist, bæði vegna hraðrar tækniþróunar en einnig vegna síbreytilegra tískustrauma sem hafa áhrif á kröfur neytenda.
Hvað eru stjórnvöld að gera?
Á Íslandi er aðkoma Umhverfisstofnunar að raftækjum í gegnum markaðseftirlit sem snýr að því hvort raftæki, batterí og rafgeymar sé tunnumerkt. Umhverfisstofnun heldur einnig skrá með upplýsingum um alla framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja og hefur eftirlit með þeim.
Nánar um raf- og rafeindatæki og rafhlöður og rafgeyma á vef Umhverfisstofnunar.
Hlutverk Úrvinnslusjóðs er að safna upplýsingum um magn raf- og rafeindatækja sem sett eru á markað, um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs sem safnað er og ráðstöfun hans og skila þeim til Umhverfisstofnunar fyrir 1. apríl ár hvert fyrir undangengið ár. Einnig skal Úrvinnslusjóður ná tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun raf- og rafeindatækjaúrgangs.
Það helsta sem tengist raftækjum sem kemur frá framkvæmdastjórn ESB eru þeir fjórir pakkar úr Circular economy action plan EU sem nefndir eru hér að neðan.
Green claims - Grænar umhverfisfullyrðingar
Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt nýja tillögu að tilskipun um efni og miðlun umhverfisfullyrðinga. Markmið tillögunnar er að berjast gegn svonefndum grænþvotti og villandi umhverfisfullyrðingum við markaðssetningu á vörum og þjónustu. Samkvæmt tillögunni munu neytendur öðlast meiri skýrleika og sterkari fullvissu um að það sem selt er sem „grænt“ sé það í raun og veru.
Tillagan mun einnig hlífa þeim fyrirtækjum sem leggja sig fram um að auka sjálfbærni í vöru- og þjónustuframboði sínu við óheiðarlegri og ósanngjarnri samkeppni og hjálpa til við að skapa jöfn skilyrði þegar kemur að upplýsingum um umhverfisframmistöðu einstakra vara.
Tillagan um grænar kröfur gengur nú til umræðu og samþykktar hjá Evrópuþinginu og ráðinu.
Sjá nánar upplýsingablað og vefsíðu um grænar umhverfisfullyrðingar.
Right to repair - Réttur til viðgerða
Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt nýja tillögu um sameiginlegar reglur sem stuðla að auknum viðgerðum á biluðum og skemmdum vörum. Markmiðið er að draga úr sóun í hagkerfinu og þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem fylgir. Þannig á tillagan að skila sparnaði fyrir neytendur og styðja við markmið Græna sáttmálans.
Síðustu áratugi hefur endurnýjun oft verið sett í forgang fram yfir viðgerðir þegar vörur bila eða skemmast og neytendur hafa ekki fengið nægilegan hvata til að gera við vörur sínar þegar ábyrgð á vöru rennur út. Tillagan mun gera neytendum auðveldara og um leið hagkvæmara að láta gera við í stað þess að skipta út vörum. Aukin eftirspurn mun skila sér í aukningu á viðgerðarþjónustu á sama tíma og framleiðendur og seljendur eru hvattir til að þróa sjálfbærari viðskiptamódel.
Jafnframt mun tillagan tryggja að fleiri vörur verði lagfærðar innan lögbundinnar ábyrgðar og að neytendur eigi aðgang að auðveldari og ódýrari möguleikum til að gera við vörur sem eru tæknilega viðgerðarhæfar, svo sem ryksugur, spjaldtölvur og snjallsíma, þegar ábyrgð á vörunni er útrunnin eða þegar varan virkar ekki lengur vegna slits.
Eco-design for sustainable products (ESPR) - Visthönnun fyrir sjálfbærar vörur
Framkvæmdastjórn ESB hefur birt tillögu að reglugerð um visthönnun fyrir sjálfbærar vörur (ESPR), sem er talin „hornsteinn nálgunar framkvæmdarstjórnarinnar að umhverfisvænni og sjálfbærari hringrásar vörum“. ESPR passar inn í víðtæka ramma vöru- og neytendalöggjafar ESB og stækkar úrval vara sem eru háðar kröfum um visthönnun, en krefst jafnframt þess að seljendur veiti neytendum upplýsingar til að að taka upplýstari og sjálfbærari ákvarðanir við kaup á vörum og hvetja til sjálfbærrar neyslu.
Með rammanum verður hægt að setja margvíslegar kröfur, þar á meðal um:
- endingu, endurnýtanleika, uppfæranleika og viðgerðarhæfni
- tilvist efna sem hindra hringrás
- orku- og auðlindanýtingu
- endurunnið efni
- endurframleiðslu og endurvinnslu
- kolefnis- og umhverfisfótspor
- upplýsingakröfur, þar á meðal varðandi stafrænan vörupassa
Circular electronics initiative - Raftæki í hringrás
Í samræmi við nýja stefnuramma um sjálfbærar vörur mun þetta framtak stuðla að lengri endingartíma vöru og fela meðal annars í sér eftirfarandi aðgerðir:
- reglugerðarráðstafanir fyrir rafeindatækni og upplýsinga- og samskiptatækni, þ.m.t. farsíma, spjaldtölvur og fartölvur samkvæmt visthönnunartilskipuninni þannig að tæki séu hönnuð með tilliti til orkunýtni og endingar, viðgerðarhæfni, endurnýjunareiginleika, viðhalds, endurnotkunar og endurvinnslu. Í væntanlegri vinnuáætlun um visthönnun munu koma fram nánari upplýsingar varðandi þetta.
- einbeita sér að og forgangsraða rafeindatækni og upplýsinga- og samskiptatækni til að innleiða „réttinn til viðgerðar“, þar með talið réttinn til að uppfæra úreltan hugbúnað.
- reglugerðarráðstafanir um hleðslutæki fyrir farsíma og sambærileg tæki, þar á meðal innleiðingu á sameiginlegu hleðslutæki, bætta endingu hleðslukapla og hvata til að aftengja kaup á hleðslutæki frá kaupum á nýjum tækjum.
- að bæta söfnun og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs, þar á meðal með því að kanna möguleika á endurheimtunarkerfi um allt ESB til að skila eða selja gamla farsíma, spjaldtölvur og hleðslutæki.
- endurskoðun ESB reglna um takmarkanir á hættulegum efnum í raf- og rafeindabúnaði og veita leiðbeiningar til að bæta við viðeigandi löggjöf og visthönnun.