Tækjaþon

Hugmyndasmiðja 2023

Skór

Um Tækjaþon

Tækjaþon var tveggja daga hugmyndasamkeppni um lausnir gegn raftækjasóun sem fór fram um miðjan október 2023. Þátttakendur hlýddu á fyrirlestra sem fjölluðu um stöðu raftækja í hringrásarhagkerfinu, hvaða áskorunum við stöndum frammi fyrir varðandi vaxandi raftækjaúrgang á heimsvísu, neysluhegðun fólks og skapandi hugsun í tengslum við raftæki og raftækjaúrgang.

Í framhaldinu fór fram hugmyndavinna þar tekist var á við þrjár megin áskoranir í tengslum við raftæki; ofneyslu, viðgerðir og flokkun og endurvinnslu.

Fjórar hugmyndir kepptu til úrslita

Hugmyndirnar fjórar sem kepptu til úrslita voru:

Fixmix:
Vefsíða sem er fyrsta stopp fólks þegar það lendir í vandræðum með raftæki. Þar er hægt að finna einfaldar lausnir á algengum vandamálum, tala við gervigreindarspjallmenni, spyrja samfélagið spurninga á spjallborði, finna lista yfir viðgerðaraðila og horfa á kennslumyndbönd á íslensku.

Litla Hlaðan:
Sjálfbær rafstöð sem hægt er að setja upp þar sem rafmagn er ekki aðgengilegt. Búin til úr gömlum raftækjum, t.d. bílarafhlöðum sem nýtast ekki lengur sem slíkar, og hentar vel á hálendi fyrir orkufyrirtæki, ferðaþjónustu, björgunarsveitir og umhverfið.

Tækifæri:
App sem styður við hringrásarhagkerfið. Hugsað sem vettvangur til að selja, kaupa og leigja hluti í einkaeigu.

Tækjabíllinn:
Tækjabíllinn keyrir í skóla og hverfi, fræðir börn og fullorðna, og sækir smáraftæki til endurnýtingar og endurvinnslu.

Fixmix fór með sigur af hólmi en það er gaman að segja frá því að teymið samanstóð af þeim Ástu Þórisdóttur, Báru Örk Melsted, Daníel Grétarssyni, Evan Lloyd Greene, Silju Ástudóttur og Svani Kristjánssyni, en þau tilheyra öll sömu fjölskyldunni.

Dómnefnd skipuðu Aldís Amah Hamilton, leikkona, Freyr Friðfinnsson, alþjóðafulltrúi KLAK Icelandic Startups og Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

Samstarfsaðilar

Listaháskóli Íslands
Listaháskóli Íslands