Evrópsk nýtnivika er samevrópskt átak sem stendur yfir dagana 21.-29nóvember. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs 

Í ár er þema vikunnar „það sem ekki sést“ og er þar vísað til alls úrgangs og sóunar sem myndast í framleiðsluferli vöru áður en hún kemst í okkar hendur en einnig mengunar sem verður vegna virkni vöru án þess að við verðum þess sérstaklega vör. Dæmi um slíka virkni er raforkunotkun vefsíða eða annarrar þjónustu á vefnum.  

Framleiðendur, neytendur og stjórnvöld geta öll gripið til aðgerða til að draga úr þessum ósýnilega úrgangi og sóun.  En það er gert með því að kaupa minna, nota lengur og gera við, kaupa notað eða vottað þegar við þurfum að kaupa og með því að leigja og deila frekar en eiga 

Þegar við svo búum til hluti, hvort sem það er heimagert handverk eða framleiðsla fyrirtækja á stærri skala getur verið gott að horfa á þann efnivið sem nú þegar er til og skapa eitthvað nýtt úr honum í stað þess að sækja ónýttar auðlindir 

Að auki er gott að vera meðvituð um hvernig við notum veraldarvefinn, en það er hugsun sem er ný fyrir mörgum enda fer þar sóun sem er okkur algjörlega ósýnileg. Þrátt fyrir það lítur út fyrir að orkunotkun og kolefnisspor vefsins sé líklega orðið stærra en af ferðalögum! Leiðir til að draga úr stafrænu kolefnisspori okkar eru til dæmis þær að minnka stærð skjala og mynda sem við sendum í tölvupósti, nota hlekki í stað þess að senda þung viðhengi, takmarka notkun á „reply to all“ þegar það er óþarfi, taka okkur af póstlistum á efni sem við lesum ekki og með því að slökkva á sjálfvirkri spilun (autoplay) myndbanda á samfélagsmiðlum.  

Umhverfisstofnun mun bjóða upp á fjölbreytta dagskrá á vefnum þessa viku, en við kynnum hana nánar síðar.