Áramótin eru tími þar sem við lítum um öxl, fögnum nýju ári með hækkandi sól og gleðjumst með fólkinu okkar. Undanfarin ár hafa fest sig í sessi leiðir til að fagna áramótunum sem margar hverjar hafa slæmar afleiðingar fyrir umhverfið og heilsu manna og dýra. Góðu fréttirnar eru þær að það eru tækifæri fólgin í því að skapa nýjar hefðir sem hjálpa okkur að kjarna það sem raunverulega skiptir máli í gömlu hefðunum okkar; samveru með okkar nánustu og auðvitað gleði!

Fjölnota skreytingar, hattar og borðbúnaður
Mörgum finnst gaman að skreyta sig og heimili sín um áramótin. Notum fjölnota skraut og hatta sem við getum endurnýtt ár eftir ár. Minna af einnota hlutum þýðir minna rusl og minni peningaeyðsla yfir árin.

Endurnýttar og betri áramótahefðir

Íslendingar eru ríkir af skemmtilegum áramótahefðum sem er tilvalið að prófa í stað þess að setja alla áherslu á flugeldanotkun. Strenging áramótaheita og ýmis samskipti manna við álfa eru órjúfanlegur hluti af gamlársdegi margra Íslendinga en nýjar áramótahefðir eru einnig að ryðja sér til rúms. Til dæmis er fátt sem skilur eftir betri tilfinningar en þakkarhringurinn þar sem hver og einn fer yfir hápunkta ársins, auk þess sem það getur verið algjörlega einstakt að sameinast og syngja inn nýja árið.

Einhverjir upplifa flugelda sem órjúfanlegan hluta af áramótunum. Þá getur verið sniðugt að sameinast með nágrönnum, fjölskyldu eða vinum um að kaupa flugelda, láta sér færri duga og njóta þeirra sérstaklega vel í betri loftgæðum. 

Saman gegn sóun á nýju ári

Á þeim vegamótum sem áramót eru fyrir mörgum er um að gera að strengja sér áramótaheit sem snýr að því að bæta áhrif sín á umhverfið. Hér eru ráð til þess að auka líkurnar á því að ná árangri.

Við óskum ykkur öllum gæfuríks og gleðilegs árs 2024!

Meira um umhverfisvæn jól og áramót má finna hér.