9 leiðir til að sjá hvort flík sé vönduð
Saumarnir
Skoðaðu hvort saumarnir séu úr sterkum tvinna og hvort vanti spor. Togaðu varlega í sauminn til að sjá hvort hann haldi vel. Er saumsporið nokkuð skakkt?
Tog próf
Togaðu varlega í efnið og sjáðu hvort það fari aftur í sama form þegar þú hættir að toga.
Þykkt efnis
Þykkt efnis getur skipt máli upp á endingu og á til dæmis við um bómull.
Berðu flíkina upp að ljósi til að átta þig betur á þykkt efnisins.
Rennilás
Málm rennilásar eru sterkari en þeir sem eru úr plasti.
Munstur í efni
Ef munstur passa illa saman á saumunum er það yfirleitt merki um að minni vinna hafi verið lögð í flíkina. Þetta er samt ekki algilt!
Tölur
Ef auka tölur og þráður fylgja með flík getur það táknað gæði.
Athugaðu hvort tölur séu vel festar, tvinninn sem heldur þeim sé að rakna upp eða hvort hnappagatið sé nokkuð of stórt eða lítið.
Sniðið
Snið segir mikið til um gæði og hvort eigandinn muni nota fötin.
Fljótfærnisleg vinnubrögð á sniði koma stundum fyrst í ljós þegar flíkin er mátuð. Er hægt að beygja sig og teygja án þess að álagspunktar þrengi að?
Vottanir
Ef flík hefur farið í gegnum umhverfisvottunarferli eru gæðin staðfest af sérfræðingum.
Svans- og Evrópublómsvottun eru dæmi um traustar vottanir.
Faldur og fóður
Athugaðu hvernig frágangur er á flíkinni. Er vel gengið frá földuninni eða sést í hrábrúnina á efninu?
Ef flíkin er fóðruð, athugaðu hvort að fóðurkipringur myndist við mátun. Fóður á það til að hlaupa í þvotti og það á aldrei að toga/halda í flíkina.